Íslenski boltinn

Kári Árna vann 78 prósent návíganna í fyrsta leiknum með Víkingum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári og Sölvi Geir Ottesen eru sameinaðir hjá Víkingi að nýju.
Kári og Sölvi Geir Ottesen eru sameinaðir hjá Víkingi að nýju. vísir/vilhelm
Kári Árnason kom vel út úr tölfræðinni í fyrsta leik sínum með Víkingum í Pepsi Max deild karla en íslenski landsliðsmiðvörðurinn spilaði sinn fyrsta leik á Íslandi í fimmtán ár þegar Víkingar sóttu FH-inga heim á mánudagskvöldið.Kári og félagar þurftu reyndar á endanum að sætta sig við ósanngjarnt eins marks tap í leiknum en eina mark FH-inga kom úr umdeildri aukaspyrnu undir lok leiksins.Intstat hefur nú greint þennan fyrsta leik Kára í íslensku deildinni síðan árið 2004. Það sem vekur strax athygli er gott gengi Kára í návígum í leiknum.Kári vann 21 af 27 návígum sem hann fór á Kaplakrikavellinum sem gerir 78 prósent árangur. Hann vann 88 prósent návíga á jörðinni (14 af 16) og 7 af 11 skallaeinvígum (64%). Kári vann líka 4 af 5 tæklingum sem hann fór í.Kári var enn betri í seinni hálfleiknum þegar hann vann 82 prósent návíganna sinna eða 14 af 17. Þá vann hann 75 prósent af skallaeinvígunum sínum eftir að hafa unnið aðeins 1 af 3 skallaeinvígum í fyrri hálfleiknum (33%).Kári vann boltann alls sextán sinnum fyrir Víkingsliðið og 49 af 62 sendingum hans heppnuðust sem gera 79 prósent árangur í sendingum. Kári reyndi fimm sinnum einleik í leiknum og fjórum sinnum heppnaðist það hjá honum.Víkingar voru líka ólmir í að koma boltanum á nýja manninn í liðinu því Kári fékk boltann alls 48 sinnum í leiknum. Það var aðeins Ágúst Eðvald Hlynsson sem fékk hann oftar Víkingsliðinu eða 49 sinnum. Þar munaði því bara einu skipti á þeim félögum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.