Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: HK - KA 2-1 | Áflog og dramatík í mikilvægum sigri HK

Þór Símon Hafþórsson skrifar
HK vann Breiðablik í síðasta leik.
HK vann Breiðablik í síðasta leik. vísir/bára

HK fékk KA í heimsókn í 12. umferð Pepsi Max deildar karla í dag. HK var fyrir leik búið að vinna tvo af síðustu þremur leikjum en KA var búið að tapa þremur leikjum í röð. 
 
Leikurinn var jafn framan af í fyrri hálfleik er bæði lið skipust á að eiga fínar sóknir og falleg spil sem vantaði að binda endahnútinn á. Það var hinsvegar HK sem komst yfir eftir hálftíma leik er Björn Berg Bryde fékk boltann á markteig eftir hornspyrnu og náði að fóta sig vel og smella knettinum inn af stuttu færi.
 
Adam var hinsvegar ekki lengi í paradís því rétt um 10 mínútum síðar fékk KA vítaspyrnu. Mikill klaufagangur var í vörn HK sem leiddi til þess að Arnar Freyr í markinu sá ekki aðra lausn en að rjúka út til að kýla boltann frá en keyrði niður Elfar Frey í leiðinni. 
 
Hallgrímur Mar steig upp og setti Arnar í rangt horn og jafnaði leikinn fyrir KA, 1-1, og þannig stóðu leikar er flautað var til hálfleiks.  
 
Það virtist vera eilítill hiti í mönnum er flautað var til seinni hálfleiks og átti sá funheiti ofn eftir að springa á endanum. Liðin héldu áfram að spila ágætis fótbolta fram að síðasta þriðjungnum þar sem oftar en ekki sóknin féll saman. Sú staðreynd var líklega í huga Leif Andra, fyrirliða HK, sem reyndi skot af 70 metrum sem fór rétt framhjá er Jajalo í marki KA stóð full langt frá markinu sínu.
 
KA átti svo stórsókn þegar um 10 mínútur voru eftir sem endaði með að Hallgrímur Mar átti skot í stöngina og út. Stöngin út er einmitt eitthvað sem lýsir tímabili KA ágætlega en nokkrum mínútum síðar tryggði Valgeir Valgeirsson HK sigri með gullfallegu skoti sem Jajalo gat ekkert í gert enda hafnaði boltinn í samskeytunum. Þú verð hann ekki þar.
 
Áður en HK tókst að landa sigrinum hinsvegar þá fengum við að sjá nokkur rauð og gul spjöld er allt ætlaði um koll að keyra í restina. Bjarni Gunnarsson fékk þá rautt spjald fyrir að lenda í áflogum við leikmann KA áður en Steinþór fékk sitt rauða spjald stuttu seinna. 
 
Kjánalegur endir á fínasta leik en HK er nú búið að sigra þrjá af síðustu fjórum leikjum á meðan þetta var fjórða tap KA í röð.
 
 

Afhverju vann HK?
Þetta var afskaplega jafn leikur. Ég get með engu móti sagt að HK hafi átt ekkert annað skilið og KA geti bara sjálfum sér um kennt því það væri einfaldlega rangt. Bæði lið áttu sína góðu og slæmu kafla. 
 
Hinsvegar er sá munur á þessum liðum í dag að HK er að skila inn stigum og punktum á meðan KA stefnir með hraði á fallsætis ísjakan og stýrið er bilað. 
 
KA hefði getað unnið þennan leik í restina er þeir áttu stórsókn í átt að marki KA en boltinn fór, eins og áður kom fram, stöngin út sem er einmitt það sem spóla KA um fótbolta sumarið í ár mun heita. 
 

Hverjir stóðu upp úr? 
Þetta var liðsheildin sem skóp þennan sigur HK-inga fremur en einstaklinsframtökin. Ég var satt að segja, sem fyrr segir, frekar hrifinn af spilamennsku beggja liða heilt yfir. En því miður, eftir að elda gúrme nautasteik með öllu meðlæti, þá einmitt þegar það átti að fara að snæða þá missti hana einhver í gólfið.
 
Ásgeir Marteinsson var flottur á vinstri kanntinum hjá HK og Birkir Valur var flottur í hægri bakverðinum. Valgeir Valgeirsson hitti svo boltann fullkomlega í lokin til að tryggja sigurinn.

Hallgrímur Mar var sem fyrr líklegasti leikmaður KA til að búa eitthvað til en mér fannst hann full oft reyna of flókna hluti í stað þess að spila á næsta mann og taka hlaupið.
 
En í stuttu máli: Þá stóðu fáir eitthvað sérstaklega upp úr. Þetta var bara einhvernveginn þannig leikur.

Hvað gekk illa?
Að klára sóknir. Hef farið vel yfir það. En að öðru leyti þá þurfa sumir í vörn HK að anda með nefinu því bestu færi KA komu nær öll eftir kjána og klaufagang í vörn HK þar sem einhver missti einfaldlega boltann eða átti klaufalega sendingu á mótherja. 
KA mönnum gekk að sama skapi illa að nýta sér það. Eitthvað fyrir bæði lið til að laga.

Hvað gerist næst?
HK mætir Stjörnunni, FH og KR allt á heimavelli með einum leik gegn ÍBV þarna á milli. Það er alveg hægt að sjá HK ná í nokkur stig þarna. 

KA á ÍA næst á heimavelli og þar á eftir FH heima, Breiðablik úti og Stjörnuna á heimavelli. KA hafa verið töluvert betri á Akureyri en á öðrum völlum.

Valgeir Valgeirsson: Sá strax að þetta væri mark
„Ég held ég hafi aldrei verið sáttari við neinn leik en í dag. Þetta var bara frábær tilfinning og vonandi næ ég að skora fleiri svona mörk í sumar,“ sagði eldhress hetja HK-inga í dag eftir 2-1 sigur liðsins á KA.
 
Valgeir Valgeirsson skoraði sigurmarkið í leiknum er sjö mínútur voru til leiksloka og hann virðist hafa hitt boltann afskaplega vel.
 
„Eftir að ég hitti boltann og sá hann í loftinu vissi ég að hann væri að fara inn. Ég sá strax að þetta væri mark.“
 
Flestir spámenn spáðu HK beint niður en liðið hefur nú náð í 9 af síðustu 12 mögulegum stigum og er komið í 8. sæti. Liðið virðist því vera á hárréttri leið.
 
„Við erum með frábæra taktík og við höfum verið mjög góðir í undanförnum leikjum að halda forystunni og vera rólegir í restina.“

Brynjar Björn: Nýttum tækifærið vel í dag
Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, var að vonum ánægður með sigur sinna manna í kvöld á KA.

„Þetta var vel spilaður leikur að okkar hálfu. Bestu færi KA vorum við að búa til fyrir þá en að öðru leiti fannst mér við standa vaktina okkar vel,“ sagði Brynjar sem hefur stýrt liði sínu í þrjá sigurleiki í undanförnum fjórum leikjum.
 
„Þetta er á réttri leið. Síðustu fjórir leikir hafa spilast mjög vel og við spiluðum betur í dag heilt yfir en gegn Blikum,“ sagði Brynjar sem segir að liðið ætli að halda sér á jörðinni og að markmið HK sé enn að halda sér bara í deildinni. 

„Það er fyrsta markmið og það er enn barátta um þessi öruggu sæti. Við nýttum tækifærið okkar vel í dag og klifruðum upp töfluna,“ sagði Brynjar en HK er í 8. sæti með 14 stig eftir 12 umferðir.

Hrannar Björn: Þurfum að rífa okkur í gang
„Við komum hingað til að sækja þrjú stig og förum héðan með núll sem er gífurlega svekkjandi,“ sagði Hrannar Björn, leikmaður KA, eftir tapið gegn HK í dag. 
 
KA átti fín færi áður en HK komst yfir en boltinn fór ekki í netið og því tap staðreynd.
 
„Það er stutt á milli í fótbolta og við fengum ákjósanleg færi til að komast yfir. Lágum á þeim áður en þeir komust yfir og áttum skot í stöng en inn fór boltinn ekki,“ sagði Hrannar og hélt áfram.
 
„Það þýðir ekkert að væla yfir því. Við þurfum bara að rífa okkur í gang. Ég ætla ekki að fara að kenna einhverju öðrum um en okkur að þetta sé ekki að falla með okkur. Staðreyndin er bara að við erum ekki að spila nógu vel til að sækja úrslit,“ sagði blákaldur Hrannar og telur að hann og samherjar hans þurfi að standa þétt við bakið á hvor öðrum það sem eftir lifir sumri.
 
„Við erum að fá á okkur allt of mikið af mörkum. Held við höfum fengið 12 á okkur í síðustu fjórum leikjum og þú nærð engum árangri þannig. Við þurfum bara að sækja í grunngildin og þétta raðirnar.“


Óli Stefán: Var orðin graður í sigurmark
„Þegar þeir skoruðu þetta seinna mark vorum við með öll tök á leiknum og orðin graður í sigurmark þannig að fá á okkur þetta sigurmark er gífurlega svekkjandi,“ sagði svekktur Óli Stefán Flóventsson, þjálfari KA, eftir tapið gegn HK í dag.
 
„Við erum á þeim kafla núna að það virðist allt vera á móti okkur og að sama skapi svolítið stöngin-inn hjá liðum sem eru að spila við okkur,“ sagði Óli en KA hefði hæglega getið unnið leikinn í dag hefði liðið nýtt færin betur.
 
„Við þurfum að halda áfram okkar vinnu og vera trúir okkur og á endanum hlýtur þetta að falla með okkur,“ sagði vongóður Óli en eru menn ekkert farnir að hafa áhyggjur á Akureyri?
 
„Þegar svona illa gengur þá er það bara í eðlinu að byrja að efast um allt sem maður er að gera. Það þekkja allir sem hafa lent í svona. En það eru allir staðráðnir í að bretta upp ermarnar og snúa þessu við. Gæðin eru svo sannarlega til staðar í þessu liði.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.