Enski boltinn

Jürgen Klopp sagði nei við Steven Gerrard

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard og Jürgen Klopp. Með þeim er Steve McManaman.
Steven Gerrard og Jürgen Klopp. Með þeim er Steve McManaman. Getty/Christopher Lee
Steven Gerrard fær ekki Ryan Kent aftur lánaðan frá Liverpool ef marka má fréttir frá Englandi.

Ryan Kent kom á láni til Rangers á síðustu leiktíð og stóð sig svo vel að hann var valinn besti ungi leikmaður skosku úrvalsdeildarinnar.

Gerrard vildi fá þennan 22 ára framherja aftur á láni en fékk nei frá Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool samkvæmt frétt hjá Daily Express.







Góð tengsl Steven Gerrard og Liverpool dugðu ekki í þetta skiptið en nú er kominn að stórum tímapunkti á Liverpool-ferli  Ryan Kent.

Jürgen Klopp vill nefnilega gefa Ryan Kent tækifæri til að vinna sig inn í aðallið Liverpool á þessu undirbúningstímabili.

Ryan Kent komst ekki á blað í 6-0 sigri á Tranmere en byrjaði í þriggja manna sóknarlínu með þeim Harry Wilson og Rhian Brewster. Rhian Brewster skoraði tvö og lagði upp eitt en Wilson átti eina stoðsendingu.

Ryan Kent er fæddur í nóvember 1996 og verður því 23 ára á þessu ári. Hann spilar vanalega sem vinstri kantmaður og er alinn upp hjá Liverpool.

Kent fékk sinn fyrsta atvinnumannasamning hjá Liverpool árið 2015 en hefur síðan farið á láni á hverju tímabili.

Hann var lánaður til  Coventry City,  Barnsley, SC Freiburg og Bristol City áður en kom að láninu til Rangers.

Ryan Kent var með 6 mörk og 6 stoðsendingar í 23 leikjum í skosku úrvalsdeildinni með Rangers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×