Erlent

Myrkvuð Manhattan í lamasessi í gærkvöldi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Myrkrið í New York í gærkvöldi.
Myrkrið í New York í gærkvöldi. Vísir/EPA
Rafmagnslaust varð í hjarta miðborgarinnar á Manhattan í New York í um fimm klukkustundir í gærkvöldi. Rafmagnsleysið olli því m.a. að ljósin á Times Square, einu helsta og jafnframt bjartasta kennileiti borgarinnar, slokknuðu. Þá festist fólk í neðanjarðarlestum og íbúar neyddust til að stjórna sjálfir umferð.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði New York-borgar má rekja rafmagnsleysið til skammhlaups í straumbreyti í miðbænum, sem varð að eldsvoða. Rafmagni sló þannig út á nokkuð stóru svæði, allt frá Times Square og að 72. stræti við Broadway, og er talið að rúmlega 70 þúsund heimili og fyrirtæki hafi orðið rafmagnslaus.

Rafmagni var komið aftur á skömmu fyrir miðnætti en í millitíðinni lágu umferðarljós víða niðri í borginni, til dæmis við Rockefeller Center. Hér að neðan má sjá myndband af óbreyttum borgurum sem leystu ljósin af hólmi og freistuðu þess að stýra umferðinni í rafmagnsleysinu.

Þá þurfti víða að aflýsa leiksýningum á Broadway, sem trekkja iðulega að þúsundir manna á laugardagskvöldum. Leikhópur verðlaunasöngleiksins Hadestown bauð upp á sárabót handa vonsviknum áhorfendum fyrir utan leikhúsið í gær og söng fyrir þá lög úr söngleiknum.

Bandaríska söngkonan Jennifer Lopez kom jafnframt á framfæri afsökunarbeiðni til aðdáenda sinna en hún neyddist til að aflýsa tónleikum sínum í Madison Square Garden vegna rafmagnsleysisins.

Hér að neðan má svo sjá myndband af því þegar rafmagni var komið aftur á um miðnætti. Mikil fagnaðarlæti brutust út í borginni þegar birti loksins til á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×