Erlent

Bandarísk flugfélög halda 737 MAX-þotunum áfram á jörðu niðri

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Boeing 737 MAX undir merkjum American Airlines.
Boeing 737 MAX undir merkjum American Airlines. Vísir/Getty

Bandaríska flugfélagið American Airlines tilkynnti í dag að það hyggist ekki fljúga Boeing 737 MAX-þotum sínum fyrr en í fyrsta lagi 3. nóvember næstkomandi, eða tveimur mánuðum síðar en áætlað hefur verið til þessa.

Í yfirlýsingu frá flugfélaginu segir að vegna þessarar ákvörðunar verði um 115 flugferðum aflýst á degi hverjum frá þeim degi sem félagið hugðist upprunalega setja vélarnar í loftið, og þar til í nóvemberbyrjun.

Eins tilkynnti flugfélagið United Airlines á föstudag að það myndi halda þotum sömu tegundar mánuði lengur á jörðu niðri heldur en í fyrstu var áætlað, til sama dags og American, 3. nóvember.

United er með 14 737 MAX-þotur á sínum snærum en American Airlines er með 24. Þá er annað bandarískt flugfélag, Southwest, með 34 slíkar þotur hjá sér og hefur þurft að aflýsa um 150 flugferðum á dag frá því að tekin var ákvörðun um að vélunum yrði ekki flogið vegna galla í stýribúnaðar sem olli tveimur mannskæðum flugslysum í október og mars síðastliðnum.

„American Airlines stendur áfram í þeirri trú að fyrirhugaðar hugbúnaðaruppfærslur á Boeing 737 MAX-þotunum, ásamt þeim nýju þjálfunaraðferðum sem Boeing þróar nú í samstarfi við samtök flugfélaga, muni leiða til þess að vélin fái aftur leyfi til þess að fljúga á þessu ári,“ segir í tilkynningu félagsins.

Í fyrri tilkynningum er sneru að sama málefni sagðist félagið telja að flugleyfi á þoturnar yrði veitt „bráðlega.“

Heimildir AP innan flugmálayfirvalda í Bandaríkjunum herma að nákvæm tímasetning þess hvenær vélarnar fái að fara aftur í loftið sé ekki í sjónmáli. Líklegast sé að það verði ekki fyrr en árið 2020.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.