Erlent

Flóð hafa hrakið milljónir frá heimilum sínum í Suður-Asíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Þorspbúar í Assam-ríki á Indlandi róa í leit að skjóli.
Þorspbúar í Assam-ríki á Indlandi róa í leit að skjóli. Vísir/EPA
Fleiri en hundrað manns hafa látist og fjórar milljónir hafa þurft að flýja heimili sín í miklum flóðum á Indlandi, í Nepal og Bangladess. Búist er við því að þeim látnu og þeim sem þurfa að yfirgefa heimili sín eigi eftir að fjölga eftir því sem monsúnrigningar halda áfram í heimshlutanum.Árstíðabundnu monsúnrigningarnar eru nýhafnar og er gert ráð fyrir að þær eigi aðeins eftir að færast í aukana á næstu vikum. Að minnsta kosti 800 manns fórust í flóðum í monsúnrigningunum árið 2017.Flestir hafa þurft að flýja Assam- og Bihar-ríki á Indlandi. Í Assam hafa um 4,3 milljónir manna flúið heimili sín undanfarna tíu daga, að sögn Reuters-fréttastofunnar.Norðan landamæranna í Nepal hafa 64 farist og 31 er saknað. Margir þeirra látnu fórust í aurskriðum sem hrifu með sér hús. Í Bangladess hafa um 190.000 manns neyðst til að yfirgefa heimili sín.Sumarmonsúnrigningar standa yfirleitt frá því í júní og fram í september í Asíu. Þegar sumarið byrjar og meginlandið tekur að hitna meira en hafið í kring myndast lágþrýstisvæði yfir landinu sem sogar til sín rakt loft af Indlandshafi. Afleiðingin verður árstíðarbundin úrhellisúrkoma á Indlandi og Suðaustur-Asíu. Mörg ríki reiða sig á úrkomuna en henni fylgir þó einnig eyðilegging og mannfall.Vísbendingar eru um að hnattræn hlýnun af völdum manna geti gert monsúnrigningar enn ákafari en ella þar sem hlýrra loft getur borið meiri raka en svalara.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.