Erlent

Bandaríkjastjórn íhugar að hætta að taka við flóttamönnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Hugmyndin um að hætta að taka við flóttafólki er talin runnin undan rifjum Stephens Miller, eins helsta harðlínumannsins í innsta hring Trump forseta.
Hugmyndin um að hætta að taka við flóttafólki er talin runnin undan rifjum Stephens Miller, eins helsta harðlínumannsins í innsta hring Trump forseta. Vísir/EPA

Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta er nú sögð hugleiða að hætta nær alfarið að taka á móti flóttamönnum á næsta ári. Móttökum flóttamanna fækkaði þegar um þriðjung á þessu ári en harðlínumenn í stjórn Trump hafa róið að því öllum árum að fækka innflytjendum sem koma til Bandaríkjanna jafnt löglega sem ólöglega.

Bandaríska blaðið Politico hefur eftir heimildarmönnum sínum að fulltrúi Borgara- og innflytjendastofnunarinnar sem sé náinn bandamaður Stephens Miller, ráðgjafa Trump forseta í innflytjendamálum og harðlínumanns, hafi lagt til að kvótinn fyrir flóttamenn verði núll á næsta ári.

Á fundi embættismanna um móttöku flóttamanna í síðustu viku hafi fulltrúar heimavarnaráðuneytisins á móti lagt til að fjöldinn verði einhvers staðar á bilinu 3.000 til 10.000 flóttamenn. Bandaríkin ætla að taka við 30.000 flóttamönnum á þessu ári.

Hugmyndin um að hætta að taka við flóttamönnum er ekki sögð hugnast utanríkisráðuneytinu. Það vilji ekki hætta að veita Írökum sem hafa hætt lífi sínu til að aðstoða Bandaríkjaher í heimalandinu hæli í Bandaríkjunum.

Fyrr í vikunni lagði ríkisstjórn Trump fram nýjar reglur til að takmarka verulega hverjir geta sótt um hæli í Bandaríkjunum. Samkvæmt þeim getur fólk sem hefur farið í gegnum annað land á leið sinni til Bandaríkjanna ekki sótt um hæli þar. Það á við um langflesta þeirra sem sækja um hæli á landamærunum að Mexíkó. Líklegt er að lögmæti reglnanna komi til kasta dómstóla.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.