Erlent

Trump tók virkan þátt í þagnargreiðslu til klámleikkonu

Kjartan Kjartansson skrifar
Donald Trump og Stormy Daniels.
Donald Trump og Stormy Daniels. Vísir/Getty
Rannsóknargögn bandarísku alríkislögreglunnar benda til þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi tekið virkan þátt í að koma í kring greiðslu til klámmyndaleikkonunnar Stephanie Clifford skömmu fyrir forsetakosningarnar árið 2016. Forsetinn hefur neitað því að hafa vitað nokkuð um greiðsluna.

Reuters-fréttastofan segir að gögnin sem um ræðir og leynd var létt af í gær hafi verið grundvöllur heimildar sem FBI fékk til að leita á skrifstofum, heimili og hótelherbergi Michaels Cohen, þáverandi lögmanns Trump forseta, í fyrra.

Cohen greiddi Clifford, sem er betur þekkt undir sviðsnafninu Stormy Daniels, 130.000 dollara fyrir að þegja um kynferðislegt samband sem hún segist hafa átt í við Trump árið 2006. Trump hefur neitað því að hafa átt í kynferðislegu sambandi við Clifford. Fyrir greiðsluna til Clifford og annarrar konu var Cohen dæmdur sekur um að hafa brotið lög um fjármál stjórnmálaframboða.

Úr gögnunum má sjá samskipti á milli Cohen, Trump, starfsmanna framboðs hans og stjórnendur útgáfufyrirtækisins American Media Inc sem gefur út sorpritið National Enquirer þegar Cohen átti í samningaviðræðum við lögmann Clifford. Eigandi National Enquirer er vinur Trump og stundaði að kaupa rétt á frásögnum um hann og aðra til þess eins að sitja á þeim.

Að sögn Reuters benda gögnin einnig til þess að Hope Hicks, fyrrverandi samskiptastjóri Hvíta hússins, hafi mögulega logið að þingnefnd þegar hún sagðist ekki hafa átt neinn þátt í viðræðum framboðsins og Cohen um greiðslu til Clifford. Dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hefur sent Hicks bréf og beðið hana um að koma aftur fyrir nefndina til að skýra misræmið.

Saksóknarar í New York sem sóttu Cohen til saka segjast hafa lokið rannsókn sinni á þagnargreiðslunum. Hún var talin um tíma beinast að því hvort að starfsmenn fyrirtækis Trump gætu hafa brotið lög. Ekki er útlit fyrir að frekari ákærur verði gefnar út vegna greiðslnanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×