Erlent

Forseti Bandaríkjanna kallar klámleikkonu hrossasmetti

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Stormy Daniels.
Donald Trump og Stormy Daniels. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fagnar því að dómarar hafi vísað frá máli klámleikkonunnar Stormy Daniels gegn honum. Nú geti hann höfðað mál gegn Daniels, sem heitir í raun Stephanie Clifford, og lögmanni hennar. Þessu lýsti forsetinn yfir nú fyrir skömmu á Twitter og kallaði hann Clifford „hrossasmetti“.

Clifford hafði höfðað mál gegn Trump eftir að hann tísti um að hún hefði logið um að henni hafi verið hótað fyrir að ræða um samband þeirra. Taldi Clifford að með þeirri ásökun hefði forsetinn meitt æru hennar. Hún hefur haldið því fram að þau hafi sofið saman árið 2006 og greiddi lögmaður Trump henni 130 þúsund dali í aðdraganda kosninganna 2016 fyrir að segja ekki frá hinu meinta framhjáhaldi.

Sjá einnig: Ærumeiðingarmáli klámmyndaleikkonu gegn Trump vísað frá



Í áðurnefndu tísti segir Trump að Clifford viti ekkert um hann og að hún sé svikahrappur.

Clifford svaraði Trump um hæl.

„Má ég kynna forseta ykkar,“ skrifaði hún á Twitter. Í tísti sínu gefur hún í skyn að typpi Trump sé smávaxið og segir hann hafa sýnt að hann sé óhæfur í starfi, hati konur og hafi ekki stjórn á sjálfum sér.

Þá gefur hún í skyn að Trump hafi kynferðislegan áhuga á dýrum, þar sem hann telji hana líta út eins og hest.

Lögmaður Clifford, Michael Avenatti, hefur einnig svarað tísti Trump og segir forsetann vera „ógeðslegan kvenhatara“ og hann sé skammarefni fyrir Bandaríkin. Þá hvetur hann forsetann til að höfða mál gegn þeim.

„..því við ætlum að sýna heiminum hve mikill svikahrappur og lygari þú ert. Hversu mörgum öðrum konum hélst þú fram hjá eiginkonu þinni með á meðan þú áttir barn heima?“ skrifar Avenatti.


Tengdar fréttir

Konur fjarlægjast Repúblikanaflokkinn

Sífellt færri bandarískar konur skilgreina sig sem Repúblikana og fækkunin staðið yfir um nokkuð skeið. Hins vegar virðist sem að hægur straumur hafi orðið að flóði í forsetatíð Donald Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×