Erlent

Atvinnuhvalveiðar Japana hafnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Japanskir hvalveiðimenn landa hrefnu í Kushiro í dag.
Japanskir hvalveiðimenn landa hrefnu í Kushiro í dag. Vísir/EPA

Japönsk hvalveiðiskip eru komin til hafnar með fyrstu hvalina sem veiddir eru í atvinnuskyni í landinu í áratugi. Japönsk yfirvöld gáfu út veiðileyfi fyrir 227 hvali á þessu tímabili, um hundrað dýrum færra en fyrir vísindaveiðar þeirra í fyrra.

Veiðarnar sem nú eru hafnar eru í trássi við bann Alþjóðahvalveiðiráðsins. Japanir sögðu sig úr ráðinu og virðir ekki reglur þess. Uppsögnin tók gildi í dag. Þetta er í fyrsta skipti frá árinu 1987 sem Japanir veiða hval í atvinnuskyni en undanfarin ár hafa þeir stundað það sem þeir hafa nefnt vísindaveiðar á hval.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að japönsku skipin hafi leyfi til að veiða 52 hrefnur, 25 sandreyðar og 150 skorureyðar [e. Bryde's whale]. Kvótinn fyrir vísindaveiðarnar í fyrra var 333 dýr.

Hrefna og skorureyður eru ekki taldir í útrýmingarhættu á lista Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN). Sandreyður er talinn í útrýmingarhættu en stofninn er þó talinn fara stækkandi.

Náttúruverndarsamtök eins og Grænfriðingar og Sea Sheperd mótmæla hvalveiðum Japana en þau hafi enn sem komið er ekki boðað sérstakar aðgerðir gegn þeim.

Hvalveiðar eru lítill iðnaður í Japan og er áætlað að um þrjú hundruð manns hafi af þeim atvinnu. Japanir hafa haldið því fram að hvalveiðar og át sé hluti af menningu landsins. Japönsk yfirvöld hafa sagt að veiðarnar nú fari fram innan efnahagslögsögu landsins en ekki í Suður-Íshafinu eins og vísindaveiðarnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.