Enski boltinn

City borgaði riftunarákvæði Rodri

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Rodri nálgast Englandsmeistarana
Rodri nálgast Englandsmeistarana vísir/getty
Manchester City er við það að gera miðjumanninn Rodri að dýrasta leikmanni félagsins, en Englandsmeistararnir eru búnir virkja riftunarákvæði í samningi hans við Atletico Madrid.

Atletico staðfesti það í dag að Manchester City hefði borgað 62,6 milljón punda gjaldið til þess að virkja riftunarákvæðið í dag, miðvikudag. Rodri má því orðið semja um kjör við City og fara til Manchester í læknisskoðun.

Rodri verður dýrasti leikmaður í sögu City, en þann titil átti Riyad Mahrez. Mahrez kostaði City 60 milljónir punda þegar hann var fenginn frá Leicester í fyrra.

Spænski miðjumaðurinn var aðeins búinn með ár af samningi sínum við Atletico, hann kom þangað frá Villarreal síðasta sumar. Á síðasta tímabili kom hann við sögu í 34 deildarleikum.

Hann spilaði sinn fyrsta A-landsleik fyrir Spánverja í vináttuleik við Þjóðverja á síðasta ári og hefur síðan komið við sögu í fimm landsleikjum til viðbótar.

Hinn 23 ára Rodri er varnarsinnaður miðjumaður og var hann einn af efstu mönnum á óskalista Pep Guardiola í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×