Enski boltinn

Frank Lampard orðinn knattspyrnustjóri Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard skrifar undir samninginn við Chelsea.
Frank Lampard skrifar undir samninginn við Chelsea. Mynd/Heimasíða Chelsea
Frank Lampard hefur gengið frá þriggja ára samningi um að verða næsti knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea. Þetta hefur legið í loftinu í nokkurn en endanlega var gengið frá samningnum í nótt.

Frank Lampard tekur við starfi Ítalans Maurizio Sarri sem yfirgaf Stamford Bridge í júní og gerðist knattspyrnustjóri Juventus.





Lampard þekkir vel til á Brúnni enda var hann leikmaður Chelsea í þrettán ár. Lampard lék alls 648 leiki með Chelsea liðinu og vann ellefu titla.

Lampard stýrði liði Derby County á síðasta tímabili en það var hans fyrsta starf sem knattspyrnustjóri. Liðið fór alla leið í úrslitaleikinn um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni en tapaði þar fyrir Aston Villa.

„Ég er rosalega stoltur af því að snúa aftur til Chelsea sem aðalþjálfari,“ sagði Frank Lampard og það má líka búast við því að honum verði vel tekið af stuðningsmönnum félagsins.





„Það vita allir hvað ég elska þetta félag og söguna sem við höfum átt saman. Hins vegar er öll einbeiting mín á verkefnin fram undan og komandi tímabil,“ sagði Lampard.

„Ég er kominn hingað til að leggja mig fram, ná frekari árangri með liðið og ég get ekki beðið eftir því að byrja,“ sagði Lampard.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×