Enski boltinn

Arnar Gunnlaugsson að detta út af topp 40 listanum hjá Leicester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson fagnar marki í búningi Leicester City.
Arnar Gunnlaugsson fagnar marki í búningi Leicester City. Getty/Ross Kinnaird
Arnar Gunnlaugsson, núverandi þjálfari Víkingsliðsins í Pepsi Max deild karla, var um tíma í hópi dýrustu leikmanna Leicester City frá upphafi. Hann hefur dottið niður listann á síðustu árum.

Eftir kaup Leicester City á Ayoze Perez í dag þá er Arnar kominn niður í 39. sæti yfir dýrustu leikmenn Leicester frá upphafi samkvæmt upplýsingum frá Transfermarkt.

Arnar var keyptur á 2,52 milljónir punda frá Bolton í janúarglugganum árið 1999. Á þeim tíma var skrifað um að hann hafi verið dýrasti leikmaðurinn í sögu Leicester en í raun var hann í öðru sæti á eftir Frank Sinclair.

Leicester borgaði Chelsea 2,7 milljónir punda fyrir Frank Sinclair nokkrum mánuðum fyrr eða í ágúst 1998.

Arnar var aftur á móti dýrasti knattspyrnumaður Íslands frá upphafi og sló þar með Hermanns Hreiðarssonar. Hermann varð aftur sá dýrasti þegar Wimbledon keypti hann frá Ipswich Town um sumarið.

Arnar Gunnlaugsson hafði slegið í gegn með Bolton í ensku b-deildinni og skorað 14 mörk á fyrri hluta tímabilsins þegar Leicester keypti hann. Hlutirnir gengu aftur á móti ekki upp hjá Leicester liðinu og Arnar var óheppinn með meiðsli.

Arnar náði aðeins að skora 3 mörk í 30 leikjum með Leicester í ensku úrvalsdeildinni en hann var hjá félaginu til ársins 2002. Arnar var tvisvar lánaður til Stoke, fyrst 1999–2000 tímabilið og svo aftur 2001–02. Hann fór síðan til Dundee United en samdi svo við KR sumarið 2003 og kláraði síðan ferill sinn á Íslandi.

Arnar er nú í næsta sæti á eftir Frank Sinclair og í næsta sæti á undan Aleksandar Dragovic á listanum yfir dýrustu leikmenn í sögu Leicester.

Það má búast við því að Arnar detti fljótlega út af topp 40 listanum enda eyða félög alltaf meira og meira í nýja leikmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×