Enski boltinn

„Hræðilegur samningur en stjórinn, leikmenn og þjálfarateymið vill losna við hann“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arnautovic grípur um höfuð sér.
Arnautovic grípur um höfuð sér. vísir/getty
Marko Arnautović, framherji West Ham, virðist loksins vera á leið til Kína. Austurríkismaðurinn hefur verið orðaður við brottför frá West Ham undanfarið ár og nú er loksins komið að því.

West Ham hafnaði fyrr í þessum mánuði tilboði upp á tæpar tuttugu milljónir punda frá Shanghai SIPG. Lundúnarliðið var ekki ánægt með það tilboð og kallaði það móðgandi.

Heimildir Sky Sports herma hins vegar að forráðamenn West Ham séu búnir að fá sig fullsadda af Arnautović eftir að bróðir hans kom fram í fjölmiðlum og sagði félagið vera að nota bróður sinn.







Kaveh Solhekol, blaðamaður Sky Sports, var gestur í félagaskipta-sjónvarpi Sky Sports í gærkvöldi þar sem hann sagði að þolinmæðin gagnvart framherjanum væri á þrotum. Hann væri á leið burt.

„Ég hef verið í sambandi við mann innan veggja West Ham og spurði hann hvort að það væri í lagi að við greindum frá því að Arnautovic væri á leið til Kína. Við höfðum heyrt að það yrði tilkynnt á næstu tveimur dögum,“ sagði Kaveh.

„Hann svaraði mér og sagði: Já. Hræðilegur samningur fyrir okkur en stjórinn, þjálfarateymið og leikmennirnir vildu hann burt. Þeir eru svo ólmir í að fá hann burt að þeir samþykkja þennan skelfilega samning.“

Ekki kemur fram hvaða lið Arnautovic er á leið til en mörg félög í Kína hafa haft áhuga á framherjanum. Shanghai SIPG hefur þó haft sig mest fram.

Austurríkismaðurinn hefur verið í herbúðum West Ham frá því árið 2017 en þar áður gerði hann garðinn frægan með Stoke. Hann er þrítugur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×