Erlent

Telja trjárækt eina skilvirkustu loftslagsaðgerðina í boði

Kjartan Kjartansson skrifar
Tré binda kolefni úr andrúmsloftinu.Vísindamennirnir lögðu mat á hversu mikið land væri hægt að rækta upp á jörðinni.
Tré binda kolefni úr andrúmsloftinu.Vísindamennirnir lögðu mat á hversu mikið land væri hægt að rækta upp á jörðinni. Vísir/Getty
Vísindamenn telja að hægt væri að binda um fjórðung kolefnis í andrúmslofti jarðar með því að rækta tré. Rannsókn þeirra bendir til þess að landsvæði á stærð við Bandaríkin sé hægt að rækta upp, mun stærra svæði en talið hefur verið.

Breska ríkisútvarpið BBC segir frá rannsókn vísindamannanna við Tækniháskólann í Zürich í Sviss. Þeir smíðuðu líkan til að kortleggja hvar væri möguleika á að rækta skóg á jörðinni. Niðurstaða þeirra er að hægt sé að bæta við tæpum milljarði hektara af trjáþekju. Niðurstöðurnar birtust í vísindaritinu Science.

Þessi viðbótarskógur gæti með tíð og tíma bundið um 200 milljarða tonna af koltvísýringi, um tvo þriðju þess kolefnis sem menn hafa dælt út í andrúmsloftið, fyrst og fremst með bruna á jarðefnaeldsneyti eins og kolum, olíu og gasi.

Því telja vísindamennirnir skógrækt bestu loftslagsaðgerðina sem er í boði. Hægt væri að lækka styrk koltvísýrings í lofthjúpnum niður í það sem hann var fyrir um hundrað árum. Stærstu svæðin þar sem hægt væri að rækta tré eru í Rússlandi, Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Brasilíu og Kína. Grípa þyrfti til aðgerða hratt til að hefja bindinguna sem fyrst.

Ekki eru allir vísindamenn sannfærðir af niðurstöðunum. Sumir þeirra efast um að hægt væri að binda svo mikið kolefni með því að rækta upp þau svæði sem nefnd eru í rannsókninni.

Haldi núverandi losun manna á gróðurhúsalofttegundum áfram óáreitt eða aukist hún yrði umfangsmikil skógrækt aðeins til þess að milda loftslagsbreytingarnar sem af henni hlytist. Menn losa nú rúmlega 35 milljarða tonna af koltvísýringi á ári. Miðað við það gæti skógrækt af þessari stærðargráðu seinkað áframhaldandi hnattrænni hlýnun um tæp sex ár. Síðustu tölur benda til þess að losun manna sé að aukast frekar en að dragast saman.


Tengdar fréttir

Umfang landgræðslu og skógræktar tvöfaldast

Áætlað er að árlegt umfang landgræðslu muni tvöfaldast frá 2018 til 2022 með aðgerðum um land allt sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra kynntu á blaðamannafundi í Elliðaárdalnum nú síðdegis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×