Íslenski boltinn

Helgi: Frábær völlur en þurrt grasið fór eitthvað illa í okkur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Helgi Sigurðsson hefur náð góðum árangri með Fylki
Helgi Sigurðsson hefur náð góðum árangri með Fylki vísir/bára
Fylkir tapaði 2-0 fyrir ÍA á Akranesi í dag. Helgi Sigurðsson sagði að sínum mönnum hafi gengið illa að spila boltanum á grasinu á Norðurálsvellinum, en Fylkir leikur heimaleiki sína á gervigrasi.

„Mér fannst vanta ákefð og meiri græðgi í mína menn í dag,“ sagði Helgi eftir leikinn. „Við vorum bara því miður ekki nógu ákveðnir í okkar sóknarleik eins og við höfum verið í undanförnum leikjum.“

„Við fundum engin svör við varnarleik Skagamannanna. Vorum svo sem alveg jafn góðir hérna úti á vellinum, en þeir voru betri á þeim svæðum sem skipta máli.“

Það hefur aðeins verið rætt um óstöðugleika í leik Fylkis, þeir náðu í tvo góða sigra en fengu svo skell á móti Stjörnunni, komu til baka á móti KA og náðu í sigur í síðasta leik en mæta svo frekar daufir til leiks hér. Hvað þarf Helgi að gera til þess að ná upp stöðugleika í leik sinna manna?

„Maður reynir að rýna í allt en það er óstöðugleiki hjá flestum liðum í þessari deild, þetta er jöfn deild og það geta allir unnið alla.“

„Við þurfum bara að halda áfram. Það er hægt að fara í volæði og halda að allt sé orðið slæmt en það er það ekki. Auðvitað þurfum við að spila aðeins betur en við gerðum í dag.“

„Boltinn gekk of hægt á milli manna, fyrirgjafir ekki nógu góðar inn í teig, léleg hlaup inn í teiginn og við sköpum bara lítið í þessum leik. Gerðum ekki nóg til þess að eiga eitthvað meira skilið.“

„Ég veit ekki hvort það var að við vorum allt í einu komnir á þurrt gras, frábær völlur og frábærar aðstæður og allt til alls, en eitthvað var þetta að fara illa í okkar menn og boltinn gekk of hægt,“ sagði Helgi Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×