Enski boltinn

Eigandi Everton vill fá Diego Costa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Costa varð tvisvar sinnum Englandsmeistari með Chelsea.
Costa varð tvisvar sinnum Englandsmeistari með Chelsea. vísir/getty
Farhad Moshiri, eigandi Everton, vill að félagið kanni möguleikann á að kaupa framherjann Diego Costa.

Spænsk/brasilíski ólátabelgurinn þekkir vel til í ensku úrvalsdeildinni en hann lék með Chelsea á árunum 2014-17 og varð tvisvar sinnum Englandsmeistari með liðinu.

Costa gekk aftur í raðir Atlético Madrid í ársbyrjun 2018. Hann skoraði aðeins eitt mark í spænsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og undir lok þess var hann dæmdur í átta leikja bann fyrir að móðga dómara.

Háværar sögusagnir eru um að Costa sé á förum frá Atlético og Moshiri hefur áhuga á að fá hann til Everton.

Leikmannahópur Everton er stór og félagið er að reyna að losna við nokkra leikmenn. Þrátt fyrir það er Moshiri tilbúinn að borga fyrir stjörnuframherja samkvæmt heimildum Daily Mail.

Everton endaði í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×