Enski boltinn

Liverpool fær yngsta leikmann ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harvey Elliott kom við sögu hjá Fulham í vor.
Harvey Elliott kom við sögu hjá Fulham í vor. Getty/Sebastian Frej
Liverpool hefur verið rólegt á leikmannamarkaðnum í sumar en Evrópumeistararnir hafa samt þegar náð í tvo mjög efnilega leikmenn.

Jürgen Klopp er því með augun á framtíðarskipan liðsins og þó að núverandi leikmannahópur sé á besta aldri þá ætlar Þjóðverjinn greinilega að leita uppi leikmenn sem geta tekið við keflinu eftir nokkur ár. Fyrir í leikmannahópi Liverpool voru framtíðarstjörnur eins og Rhian Brewster og Ben Woodburn.

Fyrst samdi Liverpool við hollenska miðvörðinn Sepp van den Berg eftir að hafa keypt hann frá PEC Zwolle og nú síðast sagði Telegraph frá því að Liverpool væri einnig að fá til sín miðjumanninn Harvey Elliott frá Fulham.

Harvey Elliott hafnaði skólastyrk hjá Fulham og gat valið úr tilboðum frá mörgum stórliðum. Hann valdi hins vegar Liverpool samkvæmt heimildum Telegraph.





Það voru ekki aðeins ensku félögin sem voru á eftir honum heldur einnig félög eins og Real Madrid, Paris Saint Germain og RB Leipzig.

Harvey Elliott er fæddur í apríl 2003 og á því enn marga mánuði í bílprófið. Hann getur ekki skrifað undir atvinnumannasamning fyrr en 4. apríl 2020 eða þegar hann heldur upp á sautján ára afmælið.

Elliott hefur spilað sex leiki fyrir enska sautján ára landsliðið og skoraði 3 mörk í 2 leikjum með enska fimmtán ára landsliðinu.  

Harvey Elliott spilaði tvo leiki með Fulham í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og í þeim fyrri setti hann met.

Harvey Elliott kom inn á sem varamaður á móti Wolves 4. maí síðastliðinn og varð þar með yngsti leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar eða bara 16 ára og 30 daga gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×