Enski boltinn

Herrera skaut á forráðamenn Manchester United eftir komuna til PSG

Anton Ingi Leifsson skrifar
Herrera er hann kvaddi United.
Herrera er hann kvaddi United. vísir/getty
Ander Herrera, sem skrifaði undir fimm ára samning við PSG á dögunum, skaut aðeins á stjórnarmenn Manchester United eftir komuna til frönsku meistaranna.

Sá spænski segir að stjórnin hafi komið seint með samning inn á borðið til sín og mikill munur hafi verið á Spánverjanum og stjórn United um framtíðarsýn.

„Mér líkar ekki við að skoða fortíðina en það var skoðanamunur á verkefninu og mikilvægu mínu innan þess,“ sagði Herrera og gaf það í skyn að forráðamenn United hafi ekki séð þann spænska í mikilvægu hlutverki.

„Ég var mjög ánægður og ég á félaginu mikið að þakka sem og stuðningsmönnunum og Solskjær. Hann gerði mikið svo ég yrði áfram en það gerðist ekki. Þeir komu seint og þá hafði ég ákveðið að fara til Parísar.“







Norðmaðurinn Solskjær er talinn hafa viljað halda Herrera hjá félaginu en félagið var ekki tilbúið að mæta rosalegum launakröfum hans. Spánverjinn er talinn hafa viljað fá 350 þúsund pund í vikulaun.

„Þetta hefur verið frábært. Á fimm árum hef ég spilað 189 leiki og verið mikilvægur fyrir alla þjálfara. Afhverju PSG? Því þegar þú yfirgefur stærsta félagið á Englandi, þarftu eitthvað eins og stærsta liðið í Frakklandi. Ég hefði ekki getað spilað með öðru liði á Englandi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×