Erlent

Vatíkanið afnemur friðhelgi sendiherra að beiðni franskra yfirvalda

Andri Eysteinsson skrifar
Vatíkanið hefur tekið ákvörðun sem fá fordæmi eru fyrir.
Vatíkanið hefur tekið ákvörðun sem fá fordæmi eru fyrir. Getty/Bettmann
Vatíkanið hefur ákveðið að verða við bón franskra stjórnvalda og svipta erindreka sinn í París friðhelgi sinni en sá er grunaður um kynferðisbrot. lCNN greinir frá.

Hinn 74 ára gamli Luigi Ventura hefur verið ákærður fyrir að hafa snert starfsmann ráðhúss Parísarborgar á óviðeigandi hátt við nýársmóttöku borgarstjóra Parísar í janúar siðastliðnum.

Frönsk stjórnvöld höfðu óskað eftir því að friðhelgi yfir honum yrði afnumin og hafa stjórnvöld í Páfagarði nú orðið að þeirri ósk.

Í yfirlýsingu frá Vatíkaninu segir að ákvörðunin, sem sögð er óvenjuleg, sé í samræmi við vilja Ventura sem hefur lýst yfir fullum samstarfsvilja með yfirvöldum við rannsókn málsins

Ákvörðun sem þessi er fátíð en í flestum sambærilegum málum kýs Vatíkanið heldur að kalla sendiherra sína til baka og rétta yfir þeim í Páfagarði.

Til að mynda hafnaði Vatíkanið bón Bandarískra stjórnvalda um að friðhelgi yfir Carlo Capella sem ákærður var fyrir kynferðisbrot árið 2018 væri afnumin. Þess í stað var hann kallaður til baka, réttað yfir honum í Páfagarði og hann þar dæmdur til fimm ára fangelsis.

En nú er annað uppi á teningunum og Því er ljóst að Ventura fer fyrir rétt í Parísarborg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×