Enski boltinn

John Terry orðaður við stjórastarfið hjá Newcastle United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Terry fagnar sigri Aston Villa í umspilinu um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni.
John Terry fagnar sigri Aston Villa í umspilinu um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni. Getty/ Chloe Knott
Frank Lampard gæti mætt góðvini sínum í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð ef eitthvað er að marka slúðrið hjá Guardian í dag.

Newcastle United er enn að leita að eftirmanni Rafael Benítez og nú er John Terry orðaður við starfið.

John Terry hjálpaði Aston Villa að komast aftur upp í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð sem aðstoðarmaður Dean Smith. En er núna rétti tíminn til að færa sig yfir í knattspyrnustjórastólinn?

John Terry var fyrirliði Chelsea-liðsins í þrettán ár og var einnig fyrirliði enska landsliðsins. Hann er mikill leiðtogi á velli og margir eru áhugasamir um hvernig honum myndi ganga sem knattspyrnustjóri. Reynsla og þekking á leiknum er vissulega til staðar.





Frank Lampard var aðeins í eitt ár í knattspyrnustjórastólnum hjá Derby áður en hann fékk stóra tækifærið hjá Chelsea. Lampard er tveimur árum eldri en Terry eða á sama aldri og Jose Mourinho var þegar hann tók fyrst við Chelsea-liðinu árið 2004.

John Terry endaði ferillinn hjá Aston Villa og færði sig síðan upp í þjálfarateymi liðsins eftir að skórnir fóru upp á hillu.

Terry er líka sagður hafa áhuga á að taka við Newcastle-liðinu sem endaði í þrettánda sæti í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Hann var kannski ekki efstur á óskalistanum en maður með hans litlu reynslu af þjálfun fagnar því bara að vera á listanum.

Newcastle hefur fengið nei frá mönnum eins og Jose Mourinho og Steven Gerrard en fram að þessu hefur verið líklegast að Mikel Arteta, aðstoðarmaður Pep Guardiola hjá Manchester City, fái starfið.

Newcastle seldi á dögunum sóknarmanninn Ayoze Pérez til Leicester sem eru ekki góðar fréttir fyrir nýjan knattspyrnustjóra. Sá hinn sami þarf líka tíma til að kreista eitthvað út úr leikmannamarkaðnum áður en hann lokar í byrjun ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×