Enski boltinn

Gylfi mættur aftur í vinnuna eftir brúðkaupsferðina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Sigurðsson átti eftirminnilegt sumar eftir frábært tímabil með Everton.
Gylfi Sigurðsson átti eftirminnilegt sumar eftir frábært tímabil með Everton. Getty/Oliver Hardt
Alvaran er aftur tekin við hjá íslenska landsliðsmiðjumanninum Gylfa Þór Sigurðssyni eftir einkar eftirminnilegt sumar.

Síðan Gylfi kvaddi liðsfélaga sína í Everton í maí þá hefur hann upplifað ýmislegt.

Gylfi byrjaði á því að hjálpa íslenska landsliðinu að vinna tvo lífsnauðsynlega sigra í undankeppni EM 2020, þaðan var farið til Ítalíu þar sem Gylfi giftist Alexöndru Ívarsdóttur við glæsilega athöfn við Como-vatn á Ítalíu. Í kjölfarið fóru þau síðan í brúðkaupsferð til Asíu.  

Gylfi fékk aukafrí hjá Everton til að klára brúðkaupsferðina en í gær kom hann aftur til móts við Everton liðið eins og sjá má hér fyrir neðan. Everton sagði frá komu hans á samfélagsmiðlum sínum.





Gylfi var ekki sá eini sem fékk lengra frí því það fengu einnig þeir Jordan Pickford, Michael Keane, Lucas Digne og Bernard. Nokkrir leikmenn liðsins voru síðan uppteknir með landsliðum sínum í Copa America og Afríkukeppninni.

Gylfi Sigurðsson átti frábært tímabil með Everton 2018-19 en hann var þá með 13 mörk og 6 stoðsendingar í 38 leikjum.

Það er því búist við miklu af okkar manni á 2019-20 tímabilinu sem hefst með útileik á móti Crystal Palace 10. ágúst næstkomandi.

Fyrst þarf þó að taka undirbúningstímabilið með stæl og koma sér í leikform á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×