Enski boltinn

Rooney: Van Gaal besti þjálfari sem ég hef spilað fyrir

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Louis van Gaal leggur Rooney línurnar
Louis van Gaal leggur Rooney línurnar vísir/getty
Wayne Rooney segir Louis van Gaal vera besta þjálfara sem hann hafi unnið með á ferlinum.

Rooney hóf ferilinn árið 2002 hjá Everton en 2004 fór hann yfir til Manchester United. Þá var við stjórnina Sir Alex Ferguson, einn sigursælasti knattspyrnustjóri heims, og spilaði Rooney fyrir Ferguson þar til Skotinn hætti árið 2013.

Undir stjórn Ferguson vann Rooney fimm Englandsmeistaratitla og Meistaradeild Evrópu.

2014 tók Louis van Gaal við Manchester United af David Moyes. Hann stýrði United til bikarmeistaratitils 2016 en var rekinn sólarhring síðar þar sem liðið náði ekki fjórða sæti í ensku úrvalsdeildinni.

„Van Gaal er lang besti þjálfari sem ég hef unnið með, hundrað prósent,“ sagði Rooney við Mirror.

„Taktíkin hans, hvernig hann undirbýr sig og athyglin á hin minnstu smáatriði, mér fannst þetta ótrúlegt og leit mjög upp til hans að þessu leiti. Ég hafði aldrei horft á hlutina eins og hann gerði.“

„Van Gaal veit að hans vinnuaðferðir eru erfiðar fyrir leikmenn. Ég gerði honum það ljóst á sínum tíma og við ræddum það mikið. Ég sé eftir því hvernig þetta endaði allt, en ég veit fyrir víst að ég lærði mikið af honum og mun nota það þegar ég verð þjálfari,“ sagði Rooney.

Rooney spilar um þessar mundir fyrir DC United í MLS deildinni, hann er kominn með 10 mörk í 18 leikjum á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×