Íslenski boltinn

Besta byrjun KR-inga síðan þeir urðu síðast Íslandsmeistarar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KR-ingar hafa unnið fimm leiki í röð og sitja á toppi Pepsi Max-deildinni.
KR-ingar hafa unnið fimm leiki í röð og sitja á toppi Pepsi Max-deildinni. vísir/bára

KR-ingar hafa ekki byrjað jafn vel á Íslandsmóti síðan þeir urðu Íslandsmeistarar fyrir sex árum síðan.

KR komst á topp Pepsi Max-deildar karla með 3-2 sigri á Íslandsmeisturum Vals á Meistaravöllum í gær. KR-ingar lentu 0-2 undir en komu til baka og unnu góðan sigur.

Eftir níu umferðir er KR með 20 stig, einu stigi meira en Breiðablik. ÍA er með 16 stig í 3. sætinu en á leik til góða á bæði KR og Breiðablik.

KR hefur ekki farið jafn vel af stað í efstu deild síðan 2013, þegar liðið varð Íslandsmeistari í 26. sinn. Það er jafnframt síðasti Íslandsmeistaratitill félagsins í fótbolta karla.

Fyrir sex árum unnu KR-ingar átta af fyrstu níu leikjum sínum og gerðu eitt jafntefli og voru með fimm stiga forskot á toppnum.

Líkt og nú var Rúnar Kristinsson við stjórnvölinn hjá KR. Hann gerði KR-inga að Íslandsmeisturum 2011 og 2013 og bikarmeisturum 2011, 2012 og 2014. Eftir hafa þjálfað Lilleström og Lokeren sneri Rúnar aftur heim í KR haustið 2017.

KR var bara með fimm stig eftir fyrstu fjórar umferðirnar í sumar en hefur unnið síðustu fimm leiki sína.

Í næstu umferð Pepsi Max-deildarinnar fara KR-ingar í Kaplakrika og mæta þar FH-ingum. Í 11. umferðinni fær KR svo Breiðablik í heimsókn.

Mörkin úr leik KR og Vals í gær má sjá hér fyrir neðan.
Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.