Íslenski boltinn

Jón Þór mun ræða við Cloe: „Hikum ekki við að velja hana ef svo ber undir“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jón Þór ásamt aðstoðarþjálfara sínum Ian Jeffs.
Jón Þór ásamt aðstoðarþjálfara sínum Ian Jeffs. vísir/vilhelm

Jón Þór Hauksson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta, ætlar sér að ræða við Cloe Lacasse nú þegar hún er komin með íslenskan ríkisborgararétt. Fótbolti.net greindi frá þessu í dag.

Í gær var tillaga allsherjar- og menntamálanefndar um að veita 32 einstaklingum, þar á meðal Cloe Lacasse, íslenskan ríkisborgararétt samþykkt á Alþingi. Cloe, sem er frá Kanada, er því orðin íslenskur ríkisborgari og gjaldgeng í íslenska landsliðið.

„Cloe er frábær leikmaður og hefur staðið sig frábærlega í Pepsi Max-deildinni í mörg ár. Hún hefur frábæra kosti sem fótboltamaður og kemur að sjálfsögðu greina í íslenska landsliðið eins og allir frábærir leikmenn,“ sagði Jón Þór í viðtali við Fótbolta.net í dag.

„Hún kemur til greina í þau verkefni sem framundan eru. Ef við teljum að hún eigi erindi í okkar lið eða henti okkar leik þá hikum við ekki við að velja hana ef svo ber undir.“

Cloe hefur leikið á Íslandi frá því sumarið 2015, allan þann tíma með ÍBV. Hjá ÍBV lék Cloe undir stjórn Ian Jeffs, en hann er aðstoðarlandsliðsþjálfari í dag.

Ísland hefur leik í undankeppni EM 2021 í haust og eru tveir leikir á móti Ungverjalandi og Slóvakíu á Laugardalsvelli næstu verkefni eftir æfingaleiki síðustu mánuði.

Jón Þór hefur enn ekki rætt við Cloe, enda stutt síðan hún varð gjaldgeng í landsliðið. Hann stefnir þó á að hitta hana og ræða við hana.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.