Íslenski boltinn

Leiknismenn Gyrtu sig í brók | Afturelding úr fallsæti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristján Páll Jónsson og félagar í Leikni eru komnir upp í 5. sæti Inkasso-deildarinnar.
Kristján Páll Jónsson og félagar í Leikni eru komnir upp í 5. sæti Inkasso-deildarinnar. vísir/ernir
Leiknir R. gerði góða ferð á Ásvelli og vann 1-2 sigur á Haukum í 8. umferð Inkasso-deildar karla í kvöld. Í hinum leik kvöldsins vann Afturelding 0-2 útisigur á Njarðvík.

Með sigrinum á Ásvöllum komust Leiknismenn upp í 5. sæti deildarinnar. Haukar eru í því ellefta.

Heimamenn byrjuðu betur og komust yfir á 7. mínútu með marki Seans De Silva. Á 34. mínútu jafnaði Sævar Atli Magnússon metin þegar hann nýtti sér slæm mistök í vörn Hauka.

Gyrðir Hrafn Guðbrandsson skoraði svo sigurmark Leiknis á 78. mínútu. Þremur mínútum síðar fékk De Silva sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Afturelding lyfti sér upp úr fallsæti og í 9. sæti deildarinnar með sigrinum í Njarðvík. Þetta var annar sigur Mosfellinga í síðustu þremur leikjum. Njarðvíkingar eru hins búnir að tapa fjórum leikjum í röð og eru í 10. sætinu.

Ásgeir Örn Arnþórsson kom Aftureldingu yfir á 79. mínútu og í uppbótartíma gulltryggði Alexander Aron Davorsson sigurinn þegar hann skoraði eftir undirbúning Jasons Daða Svanþórssonar.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×