Umfjöllun og viðtöl: ÍA - HK 0-2 | Ófarir Skagamanna halda áfram

Gabríel Sighvatsson skrifar
Bjarni Gunnarsson skoraði fyrra mark HK á Akranesi.
Bjarni Gunnarsson skoraði fyrra mark HK á Akranesi. vísir/bára
ÍA tók á móti HK í nýliðaslag í Pepsí Max deild karla á Skaganum í dag. Mikið var um fjölmenni þar sem fjölmargir lögðu leið sína á Akranesvöllinn þar sem Norðurálsmótið var í fullum gangi og sól og blíða á vellinum.

Sem betur fer var frítt á völlinn enda var hann alls ekki mikið fyrir augað. Til að gera stutta sögu langa þá náði HK í alltof auðveld 3 stig gegn andlausu liði ÍA.

Lítið var um færi í leiknum. HK-ingar voru þéttir til baka og treystu á skyndisóknir. Það bar strax árangur á 9. mínútu þegar Bjarni Gunnarsson skoraði fyrsta mark leiksins. Valgeir Valgeirsson skoraði annað markið eftir svipaða uppskrift.

Skagamenn ógnuðu lítið sem ekkert í leiknum og eftir að HK komst í 2-0 var alveg ljóst hvert stigin voru að fara.

Af hverju vann HK?

Gestirnir voru mun betri í dag. Þeir sýndu meiri baráttu, vilja og karakter til að klára þetta verkefni.

Spilamennskan var líka fín, varnarleikurinn var þéttur og gaf fá færi á sér og þegar HK fékk boltann refsuðu þeir með skyndisóknum sínum.

Hvað gekk illa?

Það er erfitt að átta sig á hvað kom fyrir Skagamennina sem maður sá rífa í sig lið í byrjun móts.

Þeir eru að fá á sig of mörg mörk þessa stundina og þeir náðu ekki að loka fyrir glufurnar sem opnuðust í dag. Á móti liði eins og HK sem spilar af hörku þarf baráttan að vera til staðar en hún virtist það ekki í dag.

Hverjir stóðu upp úr?

Það er ekki hægt að hrósa Skagamönnum neitt fyrir leikinn sem þeir buðu upp á í dag. HK-ingar þurftu ekki að hafa eins mikið fyrir hlutunum og haldið var og leikurinn sjálfur var leiðinlegur.

Engu að síður skiptu mörkin sem Bjarni Gunnarsson og Valgeir Valgeirsson skoruðu öllu þegar upp var staðið og voru þeir bestu menn vallarins. Þá fá HK-ingar hrós fyrir agaðan varnarleik.

Hvað gerist næst?

HK fer með 3 stig heim í kvöld og hífa sig upp í 9. sæti og eru með 8 stig. Næsti leikur þeirra er gegn vonbrigða liði Vals.

Skagamenn þurfa hinsvegar að fara að hugsa alvarlega sinn gang og þeir fá næst tækifæri eftir viku gegn Víkingum.

Brynjar Björn var kátur með uppskeru dagsins.vísir/bára
Brynjar Björn: Skaginn átti ekki nein færi

„Ég er mjög sáttur með hvernig leikurinn spilaðist. Við settum hann vel upp, við spiluðum góða vörn og vorum hættulegir í skyndisóknum,“ sagði Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, eftir sigur liðsins gegn ÍA.

„Við skorum gott mark snemma leiks með okkar fyrsta færi, sem er gott, við höfum átt erfitt með það. Við skorum mark snemma og eftirleikurinn verður auðveldari og öðruvísi, við getum klárað leikinn eftir okkar plani.“

HK átti sigurinn skilið og það var ekki mikil ógn af Skagamönnum í leiknum.

„Klárlega verðskuldað, miðað við færin og færin sem þeir fengu eða fengu ekki. Þeir fengu ekki mikið af færum, einn og einn bolti eftir klafs inni í teig. Annars átti Skaginn ekki nein færi,“ sagði Brynjar Björn.

„Það eru alltaf baráttuleikir uppá Skaga og við vorum undirbúnir fyrir það. Þú verður að gera þitt inná vellinum og það skiluðu allir 100% vinnu í dag.“

HK er í erfiðri stöðu í deildinni og þessi þrjú stig eru mjög mikilvæg fyrir liðið.

„Öll stig eru mikilvæg og tala ekki um þrjú. Þau eru gríðarlega mikilvæg fyrir okkur. Við þurfum að hafa fyrir öllum okkar stigum og það er frábært að fá þrjú stig á Akranesi í dag.“

Jóhannes Karl segir vörn ÍA ekki hafa verið góða sterka í síðustu leikjum.vísir/daníel þór
Jóhannes Karl: Gerðum þetta alltof auðvelt fyrir þá

„Virkilega svekkjandi að hafa tapað þessu eins og við gerðum. Við gerðum þetta alltof auðvelt fyrir Hk-ingana. Ætla ekkert að taka af þeim, þeir komu grimmir inn í þennan leik en frammistaðan, úrslitin, allt saman virkilega svekkjandi,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, eftir úrslit dagsins.

„Við bjuggumst við að HK-ingar myndu koma grimmir til leiks, þeir eru sterkir og öflugir. Við ætluðum að vera klárir og mæta því, við vissum að við yrðum að geta það til að ná úrslitum. Því miður náum við ekki að svara því, þegar HK-ingar skora fyrsta markið þá var alltof auðvelt fyrir þá að komast í færið og við náðum ekki að „díla“ við aðdragandann.“

ÍA sýndi ekki mikla takta í leiknum, þeir náðu ekki að brjóta HK-ingar niður og frammistaðan var síðan kórónuð þegar Þórður Þorsteinn Þórðarson fékk rautt spjald undir lok leiks.

„Fótbolti er þannig að stundum falla hlutirnir ekki með þér en þú þarft að sýna aga og því miður endaði Þórður með rautt spjald og það er mjög svekkjandi.“

ÍA hefur núna tapað fjórum leikjum í röð og þeir þurfa að finna leiðir til að snúa genginu við.

„Það er alltaf leiðinlegt að tapa fótboltaleikjum. Það sem er vandamálið núna er það sem var styrkur okkar í upphafi móts. Þetta er áhyggjuefni hvað við höfum verið að fá mörg mörk á okkur. Við þurfum að stilla okkur af, við þurfum að skilja aftur hvað lagði grunninn að við gátum náð úrslitum á móti góðum liðum,“ sagði Jóhannes Karl.

„Við þurfum líka að skilja sem hópur að það sé engin önnur nálgun inn í önnur lið, þó þau séu neðar en við í deildinni þá geta öll lið skorað mörk og unnið leiki. Þessi deild hefur verið þokkalega jöfn, stóru liðin hafa verið að lenda í basli og við erum að glíma við það núna. Ég hef trú á verkefninu og við fáum tækifæri til þess að sýna aftur hversu öflugir við erum en við þurfum að finna aftur stöðugleika í varnarleik fyrir næsta leik, það skiptir öllu máli,“ sagði Jóhannes Karl að lokum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira