Erlent

Lögregla kölluð að heimili Boris Johnson

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Boris Johnson er af mörgum talinn líklegastur til að hreppa hnossið í leiðtogakjöri Íhaldsmanna.
Boris Johnson er af mörgum talinn líklegastur til að hreppa hnossið í leiðtogakjöri Íhaldsmanna. Getty/Carl Court
Lögreglan í London var kölluð að heimili Boris Johnson, sem nú tekur þátt í leiðtogaslag Íhaldsflokksins. Lögreglan svaraði kalli nágranna sem heyrði Johnson og sambúðarkonu hans rífast.

Guardian greinir frá því að nágranninn hafi heyrt öskur og læti, og hefur blaðið eftir einum nágranna Johnson að hann hafi heyrt Carrie Symonds, sambúðarkonu Johnson, öskra „farðu af mér“ og „farðu úr íbúðinni minni.“

Lögregla mætti á svæðið en yfirgaf heimili Johnson og Symonds eftir að hafa rætt við þau tvö. Í frétt Guardian segir að lögregla hafi svarað fyrirspurn blaðsins um málið á þá leið að það hefði engar upplýsingar um málið. Það breyttist hins vegar þegar blaðamaður gaf upp málsnúmer málsins. Staðfesti lögreglan þá að útkallið hafði átt sér stað.

Í frétt Guardian segir að nágranninn hafi tekið upp rifrildi Johnson og Symonds, samkvæmt blaðinu má meðal annars heyra í Symonds öskra „farðu úr fjandans fartölvunni minni“. Þá segist nágranninn hafa heyrt diska brotna og talsverð öskur.

Fastlega er gert ráð fyrir því að Johnson standi uppi sem sigurvegari í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins en hann hefur hingað til notið afgerandi stuðnings þingmanna flokksins. Verði hann kjörinn leiðtogi mun hann taka við embætti forsætisráðherra Bretlands.


Tengdar fréttir

Sækist ekki eftir samningslausri útgöngu Breta

Þótt Boris Johnson ætli ekki að sækjast sérstaklega eftir því að Bretar gangi út úr Evrópusambandinu án samnings þegar þar að kemur er nauðsynlegt að halda þeim möguleika opnum.

Tíu leiðtogaefni Íhaldsflokksins tilkynnt

Listi yfir þá tíu Íhaldsmenn sem sækjast eftir því að vera eftirmaður Theresu May í starfi leiðtoga Íhaldsflokksins hefur nú verið birtur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×