Umfjöllun og viðtöl: Fylkir - Selfoss 1-1 | Jafnt í Árbænum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ída Marín skorar úr vítaspyrnunni umdeildu.
Ída Marín skorar úr vítaspyrnunni umdeildu. vísir/bára
Fylkir og Selfoss skildu jöfn, 1-1, í 7. umferð Pepsi Max-deildar kvenna í kvöld.Hólmfríður Magnúsdóttir kom Selfossi yfir á 23. mínútu en Ída Marín Hermannsdóttir jafnaði í uppbótartíma með marki úr vítaspyrnu sem var afar umdeild.Leikurinn var annars jafn og líklega sanngjarnt að hvort liðið fengi eitt stig.Selfoss er enn í 6. sæti deildarinnar en Fylkir er kominn upp í það sjöunda.Af hverju varð jafntefli?

Leikurinn var nokkuð fjörugur og ágætlega spilaður af beggja hálfu. Selfoss treysti mikið á Hólmfríði í sínum sóknarleik og hún var langhættulegust í liði gestanna.Hólmfríður ógnaði með skotum og hlaupum inn fyrir vörn Fylkis og þá var hún dugleg að finna samherja sína í ákjósanlegum stöðum.Hjá Fylki var Ída Marín mest áberandi en Árbæingar fóru mestmegnis upp hægri kantinn hjá henni. Eitt slíkt upphlaup Ídu Marínar skilaði vítaspyrnunni. Dómurinn var þó í besta falli hæpinn.Seinni hálfleikurinn byrjaði rólega en opnaðist talsvert eftir því sem á leið. Stefanía Ragnarsdóttir og Berglind Rós Ágústsdóttir fengu báðar kjörin tækifæri til að skora fyrir Fylki og Kyra Taylor skaut yfir eftir kröftugan 50 metra sprett. Hólmfríður lagði upp gott færi fyrir Grace Rapp sem skaut framhjá og í uppbótartíma skaut Hólmfríður framhjá úr dauðafæri eftir mistök í vörn Fylkis.Hverjar stóðu upp úr?

Markaskorararnir Ída Marín og Hólmfríður voru bestu menn vallarins, alltaf hættulegar og skapandi.Berglind Rós og Hulda Sigurðardóttir léku vel í vörn Fylkis sem leit mun betur út en í 6-0 tapinu fyrir Val í síðustu umferð.Hin kornunga Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir átti fínan leik í vörn Selfoss og Barbára Sól Gísladóttir átti ágæta spretti.Hvað gekk illa?

Liðin, og þá sérstaklega Fylkir, komust oft í ákjósanleg færi til að búa til dauðafæri en tóku ranga ákvörðun. Í fyrri hálfleik komust Fylkiskonur tvisvar í frábærar stöður inni í vítateig Selfyssinga. Fyrst reyndi Maria Radojicic sendingu þegar hún átti að skjóta og Ída María skaut svo þegar hún átti að gefa boltann út í teiginn á systur sína, Thelmu Lóu.Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leik í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins síðar í vikunni. Á föstudaginn sækir Fylkir Inkasso-deildarlið ÍA heim og á laugardaginn fær Selfoss HK/Víking í heimsókn.

Alfreð var lítt hrifinn af þeirri ákvörðun Þórðar Más Gylfasonar að dæma víti á Selfoss undir lok fyrri hálfleiks.vísir/bára
Alfreð: Dómarinn veit upp á sig sökina

Alfreð Elías Jóhannesson, þjálfari Selfoss, var langt frá því að vera sáttur með vítaspyrnuna sem hans lið fékk á sig gegn Fylki í Árbænum í kvöld. „Það er hlægilegt,“ sagði Alfreð og skellti upp úr. Honum var samt ekki hlátur í huga.„Það er ótrúlegt að dómarinn [Þórður Már Gylfason] hafi dæmt þessa vítaspyrnu. Annars átti hann mjög góðan leik en gerði góða skitu þarna og veit upp á sig sökina þegar hann sér þetta,“ sagði Alfreð og bætti við að Selfoss hefði átt að fá víti í leiknum.„Þegar Grace [Rapp] var toguð niður áttum við fá víti. Þetta eru tveir stórir dómar og þá getur maður sagt að dómarinn hafi átt lala leik en ekki góðan leik.“Alfreð hefði viljað fara heim á Selfoss með þrjú stig í farteskinu.„Fyrirfram hefði ég verið sáttur með stig en ekki miðað við hvernig leikurinn spilaðist áttum við að vinna.“Alfreð kvaðst sáttur með spilamennsku Selfyssinga í kvöld.„Það var örugglega skemmtilegt að horfa á þennan leik. Hraðinn var mikill. Við hefðum þurft að vera rólegri á boltanum síðustu 20 mínúturnar. En þetta var mjög vel spilaður leikur hjá okkur fannst mér,“ sagði þjálfarinn að lokum.

Kjartan kvaðst sáttur með frammistöðu Fylkis í kvöld.vísir/bára
Kjartan: Mjög góður leikur hjá okkur

„Ég hefði viljað setja eitt mark í viðbót. Við fengum allavega tvö ákjósanleg færi til þess en vorum svo heppnar undir lokin. En heilt yfir held ég að þetta hafi verið sanngjarnt,“ sagði Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis, eftir jafnteflið við Selfoss í kvöld.Fylkiskonur komust nokkrum sinnum í góðar stöður á síðasta þriðjungi vallarins en tóku ekki alltaf réttar ákvarðanir þegar þangað var komið.„Við vorum í smá basli á síðasta þriðjungnum en ég var kannski að einbeita mér að öðrum hlutum. Það var margt jákvætt og mér fannst þessi leikur mjög góður hjá okkur,“ sagði Kjartan.Fylkir fékk á sig sex mörk gegn Val í síðustu umferð og varnarleikurinn var tekinn fyrir aðdraganda þessa leiks.„Mér fannst vörnin talsvert fyrir þótt ég hefði viljað fá meiri samskipti og þéttleika. Við héldum boltanum ágætlega aftast á vellinum en stundum full mikið“ sagði Kjartan.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.