Enski boltinn

Patrik hjá Brentford næstu fjögur ár

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Patrik skrifaði undir fjögurra ára samning við Lundúnaliðið
Patrik skrifaði undir fjögurra ára samning við Lundúnaliðið mynd/brentford
Patrik Sigurður Gunnarsson verður á mála hjá enska B-deildarliðinu Brentford til ársins 2023. Hann framlengdi samning sinn við félagið í dag.

Patrik er átján ára gamall markvörður sem samdi við Brentford síðasta sumar. Patrik ver mark varaliðs Brentford en hann þreytti frumraun sína með aðalliðinu um miðjan mars.

Hann kom inn í seinni hálfleik í sigri Brentford á Middlesbrough í mars þegar Daniel Bentley meiddist. Það var eini leikur hans með aðalliðinu en hann sat þó á varamannabekknum í sjö leikjum. Hann spilaði 31 leik með B-liðinu á síðasta tímabili.

„Ég er hæstánægður með að Patrik hafi tryggt framtíð sína hjá félaginu. Hann er ofar öllu ótrúlegur ungur maður og fyrirmynd fyrir alla sem vinna með honum,“ er haft eftir Allan Steele, einum forráðamanna B-liðsins, á heimasíðu Brentford.

„Hann á þennan samning fyllilega skilið og ég hlakka til að sjá Pat halda áfram að þroskast og vaxa með okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×