Enski boltinn

Man Utd búið að ná samkomulagi um kaup á Aaron Wan-Bissaka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aaron Wan-Bissaka.
Aaron Wan-Bissaka. Getty/Marc Atkins
Manchester United og Crystal Palace hafa komið sér saman um kaup United á hægri bakverðinum Aaron Wan-Bissaka.

BBC segir að kaupverðið sé 50 milljónir punda og að þessi 21 árs enski bakvörður fari í læknisskoðun áður en hann fer í sumarfrí.

Aaron Wan-Bissaka stóð sig mjög vel með Crystal Palace liðinu í vetur og er talinn vera einn af bestu hægri bakvörðum ensku úrvalsdeildarinnar.

Manchester United hefur jafnframt boðið Aaron Wan-Bissaka langtímasamning þar sem hann mun fá 90 þúsund pund í vikulaun eða 14,2 milljónir íslenskra króna.





Wan-Bissaka var „aðeins“ með tíu þúsund pund í vikulaun hjá Crystal Palace og er því að fá nífalda kauphækkun. Hann var lægst launaðasti leikmaður Palace.

Aaron Wan-Bissaka hefur spilað með Crystal Palace allan sinn feril en hann gekk til liðs við félagið þegar hann var aðeins ellefu ára gamall.

Wan-Bissaka hefur síðan verið í aðalliði Crystal Palace undanfarin tvö tímabil en hann spilaði 35 leiki með liðinu í ensku úrvalsdeildinni á nýloknu tímabili.

Wan-Bissaka var valinn í enska 21 árs landsliðið í sumar sem keppti í úrslitakeppni EM. Hann hefur ekki enn fengið tækifæri með enska A-landsliðinu.

Aaron Wan-Bissaka er meðal annars ætlað að leysa af Antonio Valencia sem er á förum frá félaginu eftir tíu ár en Valencia var aðalfyrirliði liðsins á þessu tímabili.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×