Íslenski boltinn

Guðjón missir af Evrópuleikjum Stjörnunnar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Guðjón í leik með Stjörnunni
Guðjón í leik með Stjörnunni vísir/bára
Guðjón Baldvinsson mun ekki spila með Stjörnunni í Pepsi Max deild karla næstu fjórar til sex vikurnar vegna meiðsla.

Guðjón staðfesti þetta við Fótbolta.net í morgun en sóknarmaðurinn meiddist í leik FH og Stjörnunnar í 8. umferð Pepsi Max deildarinnar á dögunum.

Hann gat ekki spilað með Stjörnunni gegn Breiðabliki fyrir viku né Fylki um helgina og nú er ljóst að hann mun missa af þó nokkrum leikjum Stjörnumanna á næstu vikum.

Guðjón er með tvær sprungur í tveimur beinum við ökklann.

Ef Guðjón verður tilbúinn til leiks á ný eftir fjórar vikur ætti hann að ná leik Stjörnunnar gegn HK í 14. umferð deildarinnar þann 28. júlí.

Hann missir því í það minnsta af þremur deildarleikjum ásamt því að missa af leikjum Stjörnunnar við Levadia Tallinn í Evrópudeildinni.

Stjarnan er í fjórða sæti Pepsi Max deildarinnar með 15 stig eftir 10 leiki, átta stigum frá toppliði KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×