Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Víkingur 2-3 │Endurkomu Víkingar

Einar Kárason skrifar
vísir/daníel

Sæti í undanúrslitum Mjólkurbikarsins var undir þegar ÍBV tók á móti Víkingum frá Reykjavík á Hásteinsvelli í dag. Eyjamenn átt í erfiðleikum í sumar og komu inn í þennan leik með tvö töp á bakinu á meðan gestirnir höfðu unnið sína tvo leiki.

Gestirnir hófu leikinn af miklum krafti en Örvar Eggertsson og Guðmundur Andri Tryggvason áttu báðir fínar marktilraunir snemma en Rafael Veloso í marki ÍBV varði. Þrátt fyrir bjarta byrjun Víkinga voru það heimamenn sem skoruðu fyrsta mark leiksins. Felix Örn Friðriksson komst þá inn í teig gestanna og náði skoti að marki sem Þórður Ingason í markinu varði. Felix náði boltanum á ný og lagði út á Guðmund Magnússon, framherja ÍBV, sem skoraði af stuttu færi.

Markið virtist koma Víkingum á óvart og áttu heimamenn góðan kafla í kjölfarið. Guðmundur átti skalla, aftur eftir sendingu frá Felix, en boltinn framhjá markinu. Eftir rúmlega hálftíma leik skoraði Guðmundur sitt annað mark eftir frábæra fyrirgjöf Jonathan Franks frá vinstri eftir að Franks og Sindri Snær Magnússon spiluðu saman úr hornspyrnu.

Eyjamenn á ferð og flugi í bikarnum og virtust til alls líklegir. Ágúst Hlynsson átti frábæra tilraun stuttu fyrir hálfleik með skoti langt fyrir utan en Rafael gerði frábærlega í að klóra boltann framhjá markinu. Það reyndist það síðasta og Eyjamenn, sem hafa verið sannkallað bikarlið undanfarin ár, því með 2-0 forustu í hálfleik.

Þrátt fyrir að nánast einoka boltann og fína spilamennsku virtist það ætlast Víkingum erfitt að finna leið að marki heimamanna. Oft var tækifærið til staðar en síðustu snertingar á síðasta þriðjungi ábótavanar. Þegar tæplega klukkutími var liðinn dró þó til tíðinda.

Atli Hrafn Andrason komst þá upp að endalínu og ætlaði sér að gefa fyrir en boltinn virtist vera á leiðinni afturfyrir endamörk þegar Sigurður Arnar Magnússon askvaðandi alltof seint og brýtur á Atla. Aukaspyrna dæmd sem Ágúst Hlynsson tók. Spyrnan frá Ágústi var föst og nákvæm inn í markteig Eyjamanna þar sem Sölvi Geir Ottesen kom á ferðinni og stangaði boltann í netið. Staðan orðin 2-1 og blóð á tönnum gestanna.

Víkingar héldu áfram að sækja og hefði Örvar sennilega átt að skora með skalla af stuttu færi en boltinn framhjá. Stuttu síðar hélt hann af velli og inn kom Nikolaj Hansen sem átti heldur betur eftir að setja sitt mark á leikinn. Einungis sekúndum eftir að hann kom inn á var hann kominn með gult spjald og nokkrum mínútum síðar skoraði hann jöfnunarmark gestanna úr víti eftir að Gilson Correia hafði brotið á Halldóri Smára Sigurðssyni.

Mínútu síðar kom Gilson svo boltanum í mark Víkinga en flaggið fór á loft og markið dæmt af. Andartökum eftir það var aftur komið að Nikolaj sem fékk boltann í teig Eyjamanna, fór illa með Gilson og sendi fyrir á Erling Agnarsson sem kom boltanum í netið af stuttu færi.

Heimamenn reyndu hvað þeir gátu  að jafna leikinn með látlausum sendingum inn í teig gestanna en án árangurs og fóru því Víkingar með sigur af hólmi, 2-3 og eru komnir í undanúrslit Mjólkurbikarsins.

Pedro: Hvaða pressa?
Pedro Hipolito, þjálfari ÍBV, sagði að sínir menn þurfa að fara hætta að gefa mörk og átta sig á því að jólin séu í desember en ekki um mitt sumar.

„Ég er mjög svekktur. Allir hljóta að vera svekktir,” sagði Pedro Hipolito, þjálfari ÍBV eftir leik.

„Við skorum 2 mörk í fyrri hálfleik og byrjun þann síðari vel. Þeir skapa ekki færi í síðari hálfleik en skora 3 mörk. Þetta er saga okkar þetta sumarið. Við spilum vel og stöndum jafnir gegn öllum liðum en bjóðum þeim að skora. Þetta var eins gegn Blikum. Ég sagði við þá í hálfleik að brjóta ekki, engar heimskulegar tæklingar, engin heimskuleg brot. En, sástu fyrstu 2 mörkin?”

„Við stoppum mjög gott lið frá því að spila. Þeir ná ekki að byggja upp eins og þeir vilja, en við gefum þeim mörk. Við erum fáliðaðir með takmarkaða möguleika. Miðjumennirnir okkar verða þreyttir og þá varð þetta erfitt.

„En þegar við gerum svona mistök viljum við ekkert úr leiknum. Það er mitt mat. Ef við tökum burt mörkin þeirra þá spiluðum við betur, en við töpuðum leiknum. Það eru einstaklingsmistök þarna. Það koma slæm augnablik í leiknum en annað hvort lærum við af þeim eða gefumst upp. Vonandi viljum við bæta okkur.”

„Leik eftir leik sýnum við gæði. Leik eftir leik gefum við mörk. Það eru ekki jól. Jólin eru í desember. Í öllum okkar leikjum eru jól. Við gefum mörk. Við verðum að hætta því. Það er ekki hægt að skora 2 mörk og tapa leikjum. Við höfum ekki efni á að gefa 2-3 mörk í leik. Þetta eru einstaklingsmistök sem við verðum að laga.”

Eyjamenn hafa ekki haft margar ástæður til að fagna upp á síðkastið og hafa úrslitin ekki verið þeim í dag. Spurður að því hvort þetta væri sálrænt og að pressan væri að segja til sín svaraði Pedro:

„Pressa? Hvaða pressa? Við lifum góðu lífi og fáum borgað fyrir að gera það sem okkur finnst skemmtilegt. Hvaða pressa? Hver einasti leikur er tækifæri til að breyta aðstæðum.”

„Ef mönnum líkar illa við að spila undir pressu þá skaltu hætta. Gefstu upp. Við finnum ekki fyrir þessari pressu,” sagði Pedro að lokum.

Arnar: 6 leikmenn í dag sem eru gjaldgengir í U-21 landsliðið og með alíslenskt byrjunarlið
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, sagði fyrir leik að hann lofaði mörkum, hörku og skemmtun. Hann var því skælbrosandi eftir sigurinn á ÍBV.

„Þetta var erfiður fyrri hálfleikur að mörgu leyti. Við vorum samt ekki alslæmir. Staðan var 2-0 en stundum verður að skoða leiki og bregðast við í hálfleik. Ég sagði við strákana að halda rónni. Að við værum með betra fótboltalið en þeir en við þyrftum aðeins að stilla inn á fókusinn. Það voru nokkrir leikmenn sem voru aðeins að jafna sig eftir sjóveikina eða eitthvað. Ég veit ekki.”

„Þetta kemur ekkert að sjálfu sér í fótbolta. Þó maður sé með hæfileikana þá verður alltaf að vera vinnuframlag til staðar. Fókusinn var ekki á í fyrri hálfleik. Í stöðunni 2-0 var liðið annað hvort að fara að skora 3-0 eða 2-1. Í stöðunni 2-1 fór að fara um ÍBV. Ég fann það. Þeim hefur gengið illa í deildinni og þá fóru þeir að verða taugaspenntari og við gengum á lagið. Þetta var sanngjarn sigur.”

Víkingar hófu leikinn af krafti en það voru heimamenn sem skoruðu mörkin.

„“Mér leið mjög vel í byrjun og reyndar megnið af fyrri hálfleiknum. Við vorum mikið með boltann og vorum að gera ágætis hluti. Það vantaði herslumuninn. Næstum því sending og næstum því hitt og þetta. Eyjamenn eru sterkir í því sem þeir eru að gera og voru að fara illa með okkur í föstum leikatriðum og gerðu vel í að komast í 2-0. Við héldum okkar leikstíl og ró og á endanum voru þetta fótboltaleg gæði sem unnu leikinn.”

„Sölvi er búinn að vera frábær í sumar. Aukaspyrnan frá Ágústi var frábær og það kveikti í okkur,” sagði Arnar um fyrsta mark Víkinga í leiknum.

„Við þurftum á þessu að halda. Við þurftum að skora innan korters og þá höfðum við þennan tíma án þess að vera að panikka og svo kemur Niko inn á og gerir gott víti. Við vorum að spila ágætlega. Það var smá rok og aðstæður smá erfiðar en heilt yfir er ég bara hrikalega sáttur. Þetta er þroskamerki á liðinu.”

Nikolaj Hansen, framherjinn öflugi, byrjað á bekknum í dag.

„Hann var hrikalega stífur eftir leikinn á móti KA. Hann var ekki klár í 90 mínútur. Hann er okkar vítaskytta svo mér fannst betra að hann láta hann byrja útaf og gefa okkur von á að leikurinn færi í vítaspyrnukeppni. Hann skorar út víti en fyrr en ég átti von á. Hann er bara hrikalega öflugur í okkar leik. Örvar, sem spilaði hans stöðu, var virkilega öflugur líka.”

„Við vorum með 6 leikmenn í dag sem eru gjaldgengir í U-21 landsliðið og með alíslenskt byrjunarlið. Ég er virkilega stoltur af strákunum,” sagði Arnar.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.