Íslenski boltinn

Sextán ára unglingalandsliðsmaður frá Akranesi semur við FCK

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson boðinn velkominn til FCK.
Hákon Arnar Haraldsson boðinn velkominn til FCK. Mynd/FCK.DK
Skagamaðurinn Hákon Arnar Haraldsson er farinn til danska félagsins FC Kaupmannahafnar en þetta er staðfest á heimasíðu félagsins í dag.

Hákon Arnar Haraldsson er enn bara sextán ára en hefur leikið ellefu leiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað í þeim fjögur mörk.





Hákon Arnar, sem er fæddur árið 2003, hefur ekki fengið tækifæri með ÍA í Pepsi Max deildinni og bætist þar með í hóp þeirra stráka sem fara út án þess að spila í efstu deild á Íslandi.

Hann var í íslenska sautján ára landsliðinu sem tók þátt í úrslitakeppni EM í Írlandi í maí og spilaði þá í leikjunum á móti Rússlandi og Ungverjalandi.

Foreldrar Hákon Arnars náðu miklum árangri í fótboltanum og voru þau bæði margfaldir Íslandsmeistarar og landsliðsfólk. Það eru þau Haraldur Ingólfsson og Jónína Víglundsdóttir.

Eldri bróðir hans, Tryggvi Hrafn Haraldsson, reyndi fyrir sér í atvinnumennsku í Svíþjóð en spilar með ÍA liðinu í Pepsi Max deild karla í sumar.

Líkt og Tryggvi Hrafn þá spilar Hákon Arnar framarlega á vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×