Erlent

Hundruð slökkvi­liðs­manna glíma við kjarr­elda í Kata­lóníu

Andri Eysteinsson skrifar
Sviðin jörð í Huelva í suðvesturhluta Spánar.
Sviðin jörð í Huelva í suðvesturhluta Spánar. Getty/EuropaPressNews
Hundruð slökkviliðsmanna í Katalóníu berjast nú við mestu kjarrelda svæðisins í rúm tuttugu ár.

Mikill lofthiti hefur verið í Evrópu undanfarið og hefur sjálfstjórnarhéraðið Katalónía fundið fyrir því. Skammt frá bænum La Torre de l‘Espanyol, 80 km frá strandbænum Tarragona hafa um 6,500 hektarar lands brunnið, 45 hefur verið gert að yfirgefa heimili sín og hefur vegum að brunasvæðinu verið lokað. Yfirvöld telja að eldurinn geti breiðst út og haft áhrif á allt að 20,000 hektara svæði.

Innanríkisráðherra Katalóníu, Miquel Buch, sagði í samtali við staðarmiðil að eldurinn hafi mögulega kviknað eftir að sprenging varð vegna hita á sveitabæ á svæðinu.

Mikill hiti hefur mælst um gjörvalla Evrópu en hitamet hafa verið slegin í Þýskalandi, Frakklandi, Póllandi og Tékklandi. Þá eru hitatölur yfir 40°C algeng sjón víða á Íberíuskaga og Ítalíu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×