Fótbolti

Gylfi: Við erum ekkert komnir til baka

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson var vitanlega ánægður með niðurstöðuna á Laugardalsvelli í kvöld. 2-1 sigur á Tyrklandi í undankeppni EM 2020 þýðir að Ísland er með níu stig af tólf mögulegum í riðlinum en Ísland vann líka 1-0 sigur á Albaníu á laugardag.„Markmiðinu var náð. Við náðum í sex stig og spiluðum ágætlega - gerðum það sem við þurftum. Við erum sterkir alltaf á heimavelli og ég held að leikskipulagið hafi skilað sér mjög vel,“ sagði Gylfi sem sagði að íslenska liðið hafi aldrei þurft að endurheimta neitt vígi á Laugardalsvellinum.„Við höfum alltaf verið góðir á heimavelli síðustu 5-6 ár. Ég man ekki eftir mörgum tapleikjum og því þurftum við ekki að ná í neitt vígi aftur. Við héldum þessu bara áfram,“ sagði hann.Gylfi var ánægður með hvernig þjálfarar Íslands lögðu upp leikinn og sagði að leikmenn hefðu trúað á plan þeirra.„Við höfum spilað við Tyrki áður og þeir eru ekki jafn harðir og við, vilja hlutina ekki jafn mikið og við. Þeir eru frábærir fótboltamenn en þegar við spilum eins og við gerðum í dag - erum harðir, verjumst vel og spilum fyrir hverja aðra þá eru ekki mörg lið sem geta spilað gegn okkur, sérstaklega ef við skorum snemma. Það gekk allt upp í dag fyrir utan þetta horn sem þeir skoruðu úr.“Gylfi segir að það hafi ekki verið neinn bilbugur á leikmönnum Íslands þrátt fyrir að liðið hafi ekki unnið marga leiki á síðasta ári.„Við komumst á síðasta stórmót og lentum í erfiðum riðli þar. Mættum svo Belgíu sem er næstbesta lið heims og svo frábæru liði Sviss. Við erum ekkert komnir til baka, við erum í annarri undankeppni og níu stig af tólf. Ég veit ekki hvort að fólk vilji að við vinnum Frakkland úti, það er svolítið mikið. Við erum á fínu róli og erum að halda því áfram sem við höfum gert vel á síðustu 5-6 árum.“

Tengd skjöl


Tengdar fréttir

Gylfi: Þægilegt að spila með geggjuðum Jóni Daða

Jón Daði Böðvarsson átti mjög góðan leik fyrir íslenska landsliðið sem vann Tyrkland 2-1 á Laugardalsvelli í kvöld. Gylfi Þór Sigurðsson hrósaði framherjanum mikið fyrir frammistöðu sína.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.