Fótbolti

Aron Einar: Þessi umræða var eins og hún var

Anton Ingi Leifsson skrifar
Það var stoltur fyrirliði Íslands, Aron Einar Gunnarsson, sem spjallaði við fjölmiðla eftir 2-1 sigur Íslands á Tyrklandi á Laugardalsvelli í kvöld.

„Ég er hrikalega ánægður. Ég er stoltur af hvernig við tækluðum þetta verkefni. Það er mikill meðbyr með Tyrkjunum eins og við töluðum um fyrir leikinn,“ sagði Aron við Eirík Stefán Ásgeirsson í leikslok.

„Það eru kynslóðaskipti og nýjar áherslur. Að ná sex stigum út úr þessum tveimur leikjum er virkilega jákvætt og gefur okkur sjálfstraust. Við erum búnir að gera Laugardalsvöll aftur að gryfju.“

„Þannig viljum við hafa það. Við viljum að liðin óttist við að spila við okkur á Laugardalsvelli og áhorfendurnir voru geggjaðir í kvöld.“

Tyrkir spiluðu erfiðan leik gegn Frakklandi á laugardagskvöldið og þurftu svo að ferðast til Íslands og það tók sinn toll.

„Við ætluðum að nýta okkur það að við værum ekki að ferðast og nýta okkur það með að næra okkur vel og vera klárir. Allir vöðvar klárir og mér fannst við byrja mikla betur. Þeir voru á hælunum.“

„Við vitum hvernig það er að ferðast og sérstaklega svona langt ferðalag eftir erfiðan leik gegn Frökkum. Við ætluðum að nýta okkur það.“

„Þessi umræða var eins og hún var. Við höfum ekkert að segja um það og tökum ekkert þátt í því. Mér fannst koma að krafti inn í þennan leik og settum tempóið í fyrstu spyrnu leiksins.“

Aron Einar segir að gamla góða Ísland sé komið til baka.

„Þú veist alveg hvernig við erum og hvernig við vinnum þegar við erum samheldnir og stöndum saman í því sem við erum að gera. Þetta er vonandi komið til að vera og við ætlum að vinna hart að því áfram.“

„Þegar við erum á fullum krafti og stöndum saman á Laugardalsvellinum er erfitt að vinna okkur,“ en stuðningsmennirnir voru magnaðir í kvöld og Aron var sammála því:

„Geggjaðir í kvöld. Við fundum fyrir því og það gefur okkur orku. Við vorum nokkrir sem stóðum á öndinni í lokin, hlaupa eins og brjálæðingar allan leikinn, og að heyra alla gefa manni orku - það gefur okkur kraft.“

„Við vitum það og það vita það allir að þegar við stöndum saman þá gerist óvæntir hlutir. Við þurfum að halda því áfram og vonandi er það komið til að vera. Við fáum vonandi pakkaði velli á sama móti hverjum við spilum,“

Var byrjað að fara um fyrirliðann í lokin?

„Nei, mér fannst við vera með tök á leiknum. Þegar við höldum liðunum fyrir framan okkur þá líður okkur vel og þeir voru farnir að pirra sig og það er jákvætt fyrir okkur,“ sagði Aron Einar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×