Erlent

Mótmælendur ýmist skelkaðir eða særðir vegna framgöngu lögreglu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Þúsundir gengu fylktu liði að löggjafarþinginu í Hong Kong í gær til að láta í ljós andstöðu sína við umdeilt lagafrumvarp sem heimilar framsal brotamanna frá sjálfstjórnarhéraðinu Hong Kong til meginlands Kína.
Þúsundir gengu fylktu liði að löggjafarþinginu í Hong Kong í gær til að láta í ljós andstöðu sína við umdeilt lagafrumvarp sem heimilar framsal brotamanna frá sjálfstjórnarhéraðinu Hong Kong til meginlands Kína. Vísir/ap

Mótmælendur fundu sig knúna til að hafa sig á brott í gærkvöldi vegna framgöngu óeirðarlögreglu en mannréttindasamtök hafa sakað lögregluna um óhóflegt harðræði. Mótmælendur voru afar skelkaðir en rúmlega sjötíu manns særðust í hörðum átökum.

Þúsundir gengu fylktu liði að löggjafarþinginu í Hong Kong í gær til að láta í ljós andstöðu sína við umdeilt lagafrumvarp sem heimilar framsal brotamanna frá sjálfstjórnarhéraðinu Hong Kong til meginlands Kína.

Óeirðarlögregla var send á vettvang mótmælanna og hún brást við með táragasi, piparúða, háþrýstidælum og gúmmíkúlum í þeim tilgangi að brjóta á bak aftur mótmælin.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch fordæma aðgerðirnar lögreglu og saka hana um að hafa gengið fram með óhóflegri hörku sem væri í engu samræmi við tilefnið.

Rúmlega sjötíu manns særðust í átökunum þar af liggja tveir þungt haldnir á sjúkrahúsi. Tuttugu og einn lögreglumaður særðist en níu voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar.

Óeirðarlögreglan notaði háþrýstidælur, táragas, piparúða og gúmmíkúlur til að brjóta mótmælin á bak aftur. Vísir/ap

Sakar mótmælendur um „skipulagðar óeirðir“

Stjórnvöld fundu sig knúin til að loka nokkrum skrifstofum hins opinbera í fjármálahverfi borgarinnar vegna mótmælanna.

Carrie Lam, æðsti embættismaður sjálfstjórnarhéraðsins Hong Kong, sagði í gærkvöldi að mótmælin væru ekkert annað en „skipulagðar óeirðir.“ Slíkt væri óásættanlegt í siðmenntuðum samfélögum.

Mótmælendur eru hræddir um að tilgangurinn með nýju lögunum sé að múlbinda stjórnarandstæðinga á meginlandinu og hafa látið í ljós áhyggjur sínar af gerræðislegu réttarfari í Kína, þvinguðum játningum og pyntingum og vilja að stjórnvöld hverfi frá fyrirætlunum sínum.

Andstæðingar laganna saka Carrie Lam um að hafa svikið íbúa Hong Kong.

Lam komst við í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi og hafnaði ásökunum alfarið.

„Ég ólst upp á meðal íbúa Hong Kong. Ást mín til borgarinnar hefur orðið til þess að ég hef þurft að færa miklar fórnir í hennar þágu.“

Þrátt fyrir að mikil óánægja ríki með lagafrumvarpið hyggjast stjórnvöld koma því í gegnum þingið. Áætlað er að þingið greiði atkvæði um frumvarpið 20. júní.

Mótmælendur eru hræddir um að tilgangurinn með nýju lögunum sé að múlbinda stjórnarandstæðinga á meginlandinu og hafa látið í ljós áhyggjur sínar af gerræðislegu réttarfari í Kína, þvinguðum játningum og pyntingum og vilja að stjórnvöld hverfi frá fyrirætlunum sínum. Vísir/ap

Tengdar fréttir

Umdeildu lagafrumvarpi mótmælt í Hong Kong

Þúsundir mótmælenda gengu fylktu liði að löggjafarþinginu í Hong Kong til að mótmæla umdeildu lagafrumvarpi sem heimilar framsal brotamanna frá sjálfstjórnarhéraðinu Hong Kong til meginlands Kína.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.