Erlent

Frambjóðandi demókrata vill gera vændi löglegt í Queens

Sylvía Hall skrifar
Tiffany Cabán nýtur stuðnings framsækinna demókrata.
Tiffany Cabán nýtur stuðnings framsækinna demókrata. Tiffany Cabán

Tiffany Cabán, frambjóðandi Demókrataflokksins til héraðssaksóknara New York ríkis, segir núverandi vændislöggjöf í ríkinu svipta fólk sjálfdæmi sínu og reyna að stjórna því hvað fólk kýs að gera við líkama sinn. Hún hefur gefið það út að hún stefni að því að gera vændi löglegt í Queens-hverfi nái hún kjöri en þetta kemur fram á vef Buzzfeed.

Cabán er vinsæl meðal framsækinna demókrata og hefur vakið mikla athygli eftir að þingmaðurinn Alexandria Ocasio-Cortez lýsti yfir stuðningi við hana. Sýn hennar á vændislöggjöf þykir nútímalegri en hefur tíðkast í Bandaríkjunum og fagna margir því að hún sé að opna á umræðuna.

„Við glæpavæðum fólk sem býr við óstöðugt ástand vegna kerfislægra vandamála,“ sagði Cabán í viðtali við Buzzfeed nú á dögunum. Hún segir marga neyðast til þess að fara út í þennan geira og lenda í því að vera sakfelld fyrir minniháttar brot sem leiða jafnvel til brottvísunar úr landi.

„Við viljum styðja við bakið á fólki í vændi og fólk sem vill starfa við vændi því hagkerfið okkar vinnur svo sannarlega ekki í þágu allra,“ sagði Cabán og bætti við að ef fólk væri að gera þetta í algjörri neyð þyrfti að útvega aðrar leiðir til þess að fólk sæi þetta ekki sem eina kostinn.

Kvennasamtökin NOW NYC hafa lýst yfir stuðningi við frambjóðandann Melindu Katz, meðal annars vegna þess að hún er mótfallin hugmyndinni. Vísir/Getty

Lögleiðing vændis skiptir kvenréttindabaráttunni í tvo hópa

Málið virðist skipta fólki í tvo hópa og er fólk annars vegar hlynnt eða algjörlega mótfallið hugmyndinni. Cabán segir málið þó vera bæði feminískt málefni sem snýst um grundvallar mannréttindi og lýðheilsu sem hafi einnig efnahagslegan ávinning. 

Sonia Ossorio, forseti kvennasamtakanna NOW NYC, segir það mikilvægt að breyta glæpalöggjöf í ríkinu en þetta mál sé á villigötum. 

„Það er nauðsynlegt að við endurskoðum glæpalöggjöfina en í því felst ekki, og á ekki að felast, að styðja hugmyndina um að lögleiða viðskipti sem eru í eðli sínu ofbeldi sem eru beintengd skipulagðri glæpastarfsemi sem nýta sér neyð okkur viðkvæmasta hóps,“ sagði Ossario. 

Samtökin hafa lýst yfir stuðningi við Melindu Katz, annan frambjóðanda Demókrataflokksins, sem hefur gefið það út að hún styðji ekki lögleiðingu. Hún vilji frekar fara þá leið að gera kaupendur ábyrga og halda möguleikanum opnum að sækja þá til saka líkt og þekkist á Norðurlöndunum. 

Cabán gefur lítið fyrir hugmyndir Katz og segir norræna módelið ekki virka. Hún segir það gefa augaleið að það sé ekki hægt að sækja kaupendur til saka án þess að gera þann sem selur einnig að glæpamanni. Þá skapi þetta einnig slæmt umhverfi fyrir þá sem starfa í vændi þar sem yfirvöld myndu herja á fólk í vændi í leit að upplýsingum um kaupendur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.