Íslenski boltinn

Jóhannes Karl: Fannst þetta vera dýfa

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Jóhannes Karl Guðjónsson.
Jóhannes Karl Guðjónsson. Vísir/Daníel

Nýliðar ÍA byrjðu mótið í Pepsi Max deildinni af krafti en hafa nú tapað síðustu tveimur leikjum sínum í deildinni. Þeir töpuðu fyrir KR 1-3 á heimavelli í dag.

„Við hleyptum KR-ingunum ódýrt inn í leikinn. Við ætluðum að vera þéttari til baka og vera öflugri í vörn en það breytir ekki því að mér fannst KR fá ódýrt víti,“ sagði ósáttur Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, eftir tap hans manna gegn KR í dag.

KR fékk vítaspyrnu á 10. mínútu er Hallur Flosason braut á Kristinni Jónssyni inn í vítateig Skagamanna. Eða þannig leit Helgi Mikael, dómari leiksins, á atvikið en Jóhannes Karl er ekki sammála.

„Mér fannst þetta bara vera dýfa. Dómarinn gerði ekki vel í því atviki þó svo hann dæmdi leikinn heilt yfir vel. Þetta var aldrei víti og það var erfitt fyrir okkur að kyngja því og fá svo annað markið í andlitið stuttu síðar,“ sagði Jóhannes Karl sem gaf lítið fyrir að KR hefði verið búið að kortleggja sína menn.

„Við vissum að KR-ingarnir yrðu þéttir til baka. Þeir hafa verið það undanfarið og hafa ekki fengið á sig mikið á af mörkum. Við hinsvegar í heild áttum ekki góðan leik,“ sagði Jóhannes sem segir markmið liðsins ekki hafa breyst eftir frábæra gengið í upphafi tímabils né eftir þrjá tapleiki í röð á undanförnum vikum.

„Við settum okkur markmið að berjast í efri hlutanum og það hefur ekkert breyst. Við þurfum að halda áfram að bæta okkur. Úrslitin í dag sýna að við erum ekki komnir lengra en við erum á ákveðinni vegferð og breytum ekki útaf því heldur höldum áfram,“ sagði Jóhannes Karl.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.