Íslenski boltinn

Pepsi Max Mörkin: Hannes setti Óla og Val í erfiða stöðu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hannes Þór Halldórsson hefur verið aðalmarkvörður íslenska landsliðsins síðustu ár
Hannes Þór Halldórsson hefur verið aðalmarkvörður íslenska landsliðsins síðustu ár vísir/bára
Hannes Þór Halldórsson setti Ólaf Jóhannesson og Val í mjög erfiða stöðu með því að fara til Ítalíu í brúðkaup Gylfa Þórs Sigurðssonar að mati sérfræðinga Pepsi Max Markanna.

Hannes greindi frá því í vikunni að hann hefði meiðst í upphitun fyrir leik Íslands og Tyrklands á þriðjudag. Hann spilaði þrátt fyrir það leikinn en meiðslin versnuðu og hann gat ekki verið með Val gegn ÍBV á laugardag.

Vegna meiðslanna fékk Hannes leyfi til þess að fara til Ítalíu og vera viðstaddur brúðkaup Gylfa Þórs Sigurðssonar og Alexöndru Helgu Ívarsdóttur, en þau voru gefin saman við glæsilega athöfn við Como-vatn á laugardag.

Eftir leik Vals og ÍBV, sem Valur vann 5-1, var Ólafur Jóhannesson spurður út í mál Hannesar en þar sagðist þjálfarinn ekki vita hvenær Hannes tognaði.

Sérfræðingar Pepsi Max Markanna ræddu þetta mál í uppgjörsþætti áttundu umferðar.

„Auðvitað er Óli búinn að hugsa um þetta og auðvitað veit hann hvenær Hannes tognaði og afhverju hann er úti,“ sagði Reynir Leósson.

Hörður Magnússon varpaði fram þeirri spurningu hvaða skilaboð það sendi inn í leikmannahópinn að Hannes ákveði að fara í brúðkaupið.

„Mér finnst hann vera að setja Óla í alveg svakalega erfiða stöðu með því að fara,“ sagði Atli Viðar Björnsson.

„Ég efast ekki um það í eina mínútu að hann sé meiddur og óleikfær, þetta snýst ekkert um það, en bara það að fara og vera að setja myndir á Instagram og eitthvað svona, mér finnst hann gera Óla og Val sem félagi óleik.“

Alla umræðuna má sjá hér að neðan.

Klippa: Pepsi Max Mörkin: Hannes setti Óla og Val í slæma stöðu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×