Erlent

Merkel heldur ótrauð áfram þrátt fyrir óvænta afsögn

Sylvía Hall skrifar
Merkel mun láta af störfum sem kanslari þegar kjörtímabilinu lýkur.
Merkel mun láta af störfum sem kanslari þegar kjörtímabilinu lýkur. Vísir/Getty
Angela Merkel, kanslari Þýskalands og fyrrum formaður Kristilegra demókrata, fullyrðir að samsteypustjórn hennar og Jafnaðarmannaflokksins í Þýskalandi muni starfa áfram þrátt fyrir óvænta afsögn Andreu Nahles, formanns jafnaðarmanna, fyrr í dag.

Ákvörðun Nahles kom mörgum í opna skjöldu en ástæða afsagnarinnar er sögð vera slæm útreið Jafnaðarmannaflokksins í nýafstöðnum Evrópuþingskosningum þar sem flokkurinn missti ellefu sæti á Evrópuþinginu.

Sjá einnig: Leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins í Þýskalandi segir af sér

Merkel sagðist virða „langsótta“ afstöðu Nahles sem hafði sætt mikilli gagnrýni í kjölfar kosninganna til Evrópuþingsins, þá sérstaklega frá eigin flokksmönnum.

„Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar vil ég segja að við munum halda áfram að starfa af fullri alvöru. Við munum jafnframt gera það með ábyrgðarfulla stefnu að leiðarljósi,“ sagði Merkel í samtali við blaðamenn í dag.

Nahles var fyrst kvenna til að vera kjörin formaður Jafnaðarmannaflokksins og tók við formannsembættinu í apríl í fyrra. Hún tók við embættinu af Martin Schulz sem sagði einnig af sér eftir slæmt gengi í kosningum undanfarin ár. Töldu margir að hún myndi gefa aftur kost á sér til formanns.

Enn eru um það bil tvö ár eftir af kjörtímabilinu en næst verður gengið til kosninga í landinu árið 2021. Gangi spár Merkel um áframhaldandi samstarf ekki eftir mun líklega verða boðað til kosninga fyrr en háværar raddir af vinstri væng Jafnaðarmannaflokksins hafa kallað eftir því að flokkurinn slíti samstarfinu og segja margir samstarfið vera að kosta flokkinn fylgi.

Merkel mun láta af störfum sem kanslari þegar kjörtímabilinu lýkur en hún hefur gegnt embættinu frá árinu 2005.


Tengdar fréttir

Gömlu valdablokkirnar töpuðu taki á Evrópuþinginu

Gömlu valdablokkirnar á Evrópuþinginu hafa tapað taki sínu á þinginu eftir kosningarnar sem fram fóru í gær, en kosið var til Evrópuþingsins í tuttugu og einu af tuttugu og átta aðildarríkjum Evrópusambandsins í gær en kosið var í hinum sjö aðildarríkjunum fyrr í vikunni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.