Erlent

Mette Frederiksen komin með umboð til stjórnarmyndunar

Margrét Helga Erlingsdóttir og Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifa
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt í morgun eftir að borgaraleg blokk hægriflokka missti þingmeirihluta sinn í dönsku þingkosningunum í gær.

Margrét Þórhildur Danadrottning hefur veitt Mette Fredriksen, formanni jafnaðarmanna, stjórnarmyndunarumboð og fær hún því að reyna fyrir sér fyrst allra formanna. Þrátt fyrir öruggan meirihluta vinstriflokkanna eru snúnar stjórnarmyndunarviðræður framundan.

„Þið hafið valið að Danmörk fái nýjan meirihluta og að Danmörk taki upp nýja stefnu. Og þið hafið valið að Danmörk fái nýja ríkisstjórn,“ sagði Mette í ávarpi sínu á kosningavöku Jafnaðarmannaflokksins.

Jafnaðarmannaflokkurinn er stærsti flokkur Danmerkur eftir kosningarnar í gær. Þrátt fyrir það fékk Venstre, flokkur fráfarandi forsætisráðherra, merktur V, betri kosningu en reiknað var með. Það var Danski þjóðarflokkurinn sem galt afhroð og tapaði tuttugu þingmönnum. Rauðu flokkarnir í vinstriblokkinni fögnuðu einnig góðu fylgi og felldu bláan meirihluta borgaralegu flokkanna, 91 þingmaður gegn 79.

Danski Jafnaðarmannaflokkurinn hlaut afar góða kosningu.Vísir/sylvia
Í morgun baðst Lars Løkke Rasmussen svo lausnar fyrir ráðuneyti sitt. Drottningin ráðfærði sig við fulltrúa flokkanna í dag og veitti að lokum Mette Fredriksen, formanni Jafnaðarmannaflokksins, umboð til stjórnarmyndunar.

„Ég hef fengið umboð til að reyna stjórnarmyndun. Nú hefjast viðræður innan þingsins um það hvernig ríkisstjórnin verði en einnig stjórnmálaviðræður um það að hverju verði unnið næstu fjögur ár í Kristjánsborgarhöll,“ sagði Mette við fjölmiðla að loknum fundi með Danadrottningu.

Mette hefur lýst því yfir að hún vilji að jafnaðarmenn sitji einir í minnihlutastjórn. Það kann að vera snúið að mynda ríkisstjórn þar sem mögulegir stuðningsflokkar munu vilja fá eitthvað fyrir sinn snúð. Til dæmis að jafnaðarmenn slái af kröfum sínum um harða innflytjendastefnu og gefi ríflega í á útgjaldahlið ríkisins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×