Íslenski boltinn

Þróttur vann sterkan sigur á Leikni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Úr leik liðanna síðasta sumar
Úr leik liðanna síðasta sumar fréttablaðið/ernir

Þróttur vann mikilvægan sigur á Leikni, Grótta og Fjölnir skildu jöfn og Afturelding sigraði Magna í Inkassodeild karla í kvöld.

Þrótturum hafði gengið illa að safna stigum það sem af er sumri en náðu í mikilvæg þrjú stig á Eimskipsvellinum.

Það var markalaust í hálfleik eftir að Sævar Atli Magnússon náði ekki að skora úr vítaspyrnu sem Leiknir fékk undir lok fyrri hálfleiks.

Fyrsta mark leiksins kom á 72. mínútu, það gerði Rafael Victor fyrir Þrótt. Hann bætti svo öðru marki við fjórum mínútum seinna og Jasper van der Heyden tryggði heimamönnum sigurinn með marki á 80. mínútu. Leiknum lauk með 3-0 sigri Þróttar.

Það var fallslagur á Varmárvellinum í Mosfellsbæ þar sem Afturelding tók á móti Magna.

Mikið fjör var á upphafsmínútum leiksins en Jason Daði Svanþórsson kom heimamönnum yfir strax á annari mínútu. Kristinn Þór Rósbergsson jafnaði hins vegar fyrir Magna á 16. mínútu.

Alexander Aron Davorsson kom Aftureldingu aftur yfir á 21. mínútu og Jason Daði skoraði annað mark sitt áður en hálfleikurinn var úti.

Rólegra var yfir seinni hálfleik og aðeins eitt mark skorað, það gerði Hafliði Sigurðarson á 57. mínútu. Afturelding fór með sterkan 4-1 sigur.

Á Seltjarnarnesi skildu Grótta og Fjölnir jöfn í markalausum leik.

Fjölnir er á toppi deildarinnar með 13 stig. Grótta, Leiknir og Þróttur eru öll um miðja deild, Leiknir með níu stig, Grótta átta og Þróttur sjö.

Afturelding sendi Hauka niður í fallsæti með sigrinum, fer upp í tíunda sætið með sex stig.

Upplýsingar um úrslit og gang mála eru fengnar frá Fótbolta.net.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.