Erlent

Frederik­sen ræddi lofts­lags­mál við full­trúa lík­legra sam­starfs­flokka

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen.
Mette Frederiksen. Getty

Mette Frederiksen, leiðtogi danskra Jafnaðarmanna, kveðst ánægð með ganginn í stjórnarmyndunarviðræðum hennar við fulltrúa annarra flokka á vinstri væng stjórnmálanna en loftslagsmál voru áberandi í viðræðum dagsins í dag.

„Við höfum átt virkilega góðan dag,“ sagði Frederiksen, en rauðu flokkarnir unnu sigur í þingkosningunum sem fram fóru í Danmörku á miðvikudaginn.

Frederiksen hitti í morgun grænlenska og færeyska stjórnmálamenn, þó að mestur tími hafi farið í að ræða loftslags- og umhverfismál við fulltrúa Sósíalíska þjóðarflokksins (SF), Einingarlistans og Radikale Venstre, en allir tilheyra flokkarnir rauðu blokkinni. Frederiksen kveðst stefna að því að mynda eins flokka minnihlutastjórn Jafnaðarmanna með stuðningi rauðra flokka.

Þeir flokkar sem Frederiksen sér fyrir sér sem stuðningsflokka ríkisstjórnar hennar vilja að meira verði dregið úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda en Jafnaðarmenn hafa sagst sjá fyrir sér.

Pia Olsen Dyhr, leiðtogi Sósíalíska þjóðarflokksins, segir að metnaðarfull stefna í loftslagsmálum verði að kosta og að grípa þurfi til skattahækkana.

Viðræðum um nýja stjórn verður fram haldið á morgun.


Tengdar fréttir

Mette Frederiksen komin með umboð til stjórnarmyndunar

Margrét Þórhildur Danadrottning hefur veitt Mette Fredriksen, formanni jafnaðarmanna, stjórnarmyndunarumboð og fær hún því að reyna fyrir sér fyrst allra formanna. Þrátt fyrir öruggan meirihluta vinstriflokkanna eru snúnar stjórnarmyndunarviðræður framundan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.