Erlent

Skipstjórinn handtekinn vegna harmleiksins í Búdapest

Birgir Olgeirsson skrifar
Skemmtiferðaskipið Viking Sigyn.
Skemmtiferðaskipið Viking Sigyn. Vísir/Getty
Skipstjóri skemmtiferðaskipsins sem rakst á útsýnisbát í Dóná í Búdapest hefur verið handtekinn. Skipstjórinn er 64 ára gamall og frá Úkraínu en hann er sakaður um gáleysi á siglingaleið sem olli dauða sjö manneskja.

Útsýnisbáturinn, sem flutti suður kóreska ferðamenn, sökk á sjö sekúndum eftir áreksturinn í gær.

Björgunarmenn eru vonlitlir um að finna einhverja af þeim 21 sem er saknað á lífi.

Lögreglan hefur hafið sakamálarannsókn á þessum árekstri en slys á þessari siglingaleið er sögð fátíð þó svo að umferð sé mikil.

Sjö björguðust en glímdu þó allir við ofkælingu að sögn björgunarmanna.

Upptökur á öryggismyndavélum sýna þegar skemmtiferðaskipið Viking Sigyn rakst á minni útsýnisbátinn, Hableany, eða Hafmeyjuna, nærri Margrétarbrúnni í miðri Búdapest í gærkvöldi.

„Þetta gerðist allt saman mjög hratt,“ sagði Clay Findley, bandarískur ferðamaður sem var farþegi Viking Sigyn.

„Ég hélt að við færum fram hjá en stefni Vikings hafnaði á skuti útsýnisbátsins. Skrokkur útsýnisbátsins kastaðist upp og nokkrum sekúndum síðar var hann sokkinn.“

Einn farþega Viking Sigyn segist hafa verið á einum af svölum skemmtiferðaskipsins þegar hann sá fólk í sjónum hrópa á hjálp. Engan á Viking Sigyn sakaði.

Lögreglan ákvað að yfirheyra skipstjóra Viking Sigyn sem var handtekinn eftir yfirheyrsluna.

Þrjátíu suður kóreskir ferðamenn voru um borð í útsýnisbátnum ásamt þremur leiðsögumönnum og tveggja manna áhöfn. Flestir ferðamannanna voru á fimmtugsaldri, en í hópnum var þó sex ára gamalt barn og karl á áttræðisaldri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×