Íslenski boltinn

Æpandi munur á tölfræði Valsliðsins á milli leikja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsmenn breyttu algjörlega um leikstíl eftir tapið á móti Skagamönnum.
Valsmenn breyttu algjörlega um leikstíl eftir tapið á móti Skagamönnum. Vísir/Daníel

Fórnuðu Valsmenn fallega fótboltanum fyrir einfaldari og hnitmiðaðri leikstíl til að landa fyrsta sigri tímabilsins. Tölfræðin virðist sýna það svart á hvítu þegar við berum saman tvo síðustu leiki Hlíðarendaliðsins.

Íslandsmeistarar Valsmanna unnu sinn fyrsta sigur á tímabilinu í fjórðu umferð Pepsi Max deildar karla þegar þeir unnu 1-0 útisigur á Fylki. Fimm dögum fyrr hafði Valsliðið tapað á heimavelli á móti ÍA.

Það er ótrúlegur munur á leikstíl Valsliðsins í þessum tveimur leikjum. Vísir hefur borið saman tölur frá Instat í þessum tveimur leikjum.

Valsliðið var 71,5 prósent með boltann í tapinu á móti Skagamönnum en aðeins 40,5 prósent með boltann í sigrinum á Fylki.

Valsmenn voru þannig með boltann átján mínútum lengur í Skagaleiknum heldur en í leiknum í Árbænum.

Þetta kristallast síðan í sendingum. Valsmenn reyndu 342 færri sendingar í leiknum við Fylki, fóru úr því að reyna 705 sendingar á móti ÍA í það að reyna aðeins 363 sendingar á móti Fylki.

Valsliðið átti langflestar heppnaðar sendingar í deildinni í 3. umferð en voru í 9. sæti yfir heppnaðar sendingar í 4. umferðinni. Þeir fóru úr því að senda 624 sinnum á liðsfélaga í það að ná aðeins 282 sendingum á réttan mann.

Valsliðið reyndi líka mun fleiri langar sendingar, áttu fleiri skyndisóknir og Valsmenn voru oftar dæmdir rangstæðir.

Það vakti hins vegar líka athygli að Valsliðið reyndi nánast jafnmargar sendingar inn í teig í þessum tveimur leikjum  eða 32 á móti Fylki, 31 á móti ÍA. Fyrirgjöfunum fækkaði aftur á móti úr 12 á móti ÍA í 7 í leiknum á móti Fylki.

Næsti leikur Valsmanna er á móti FH í Kaplakrika í kvöld og er hann sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst klukkan 19.15.

Munur á leikstíl Vals í 3. og 4. umferð Pepsi Max deildar karla:
(Tölfræði frá Instat)

Hlutfall leiktímans með boltann
Í tapinu á móti ÍA: 71,5%
Í sigrinum á Fylki: 40,5%

Tími með boltann
Í tapinu á móti ÍA: 38 mínútur og 43 sekúndur
Í sigrinum á Fylki: 20 mínútur og 30 sekúndur

Skyndisóknir
Í tapinu á móti ÍA: 6
Í sigrinum á Fylki: 11

Reyndar sendingar
Í tapinu á móti ÍA: 705
Í sigrinum á Fylki: 363

Heppnaðar sendingar
Í tapinu á móti ÍA: 624 (89%)
Í sigrinum á Fylki: 282 (78%)

Langar sendingar
Í tapinu á móti ÍA: 28 (64% heppnaðar)
Í sigrinum á Fylki: 44 (55% heppnapar)

Lykilsendingar
Í tapinu á móti ÍA: 5
Í sigrinum á Fylki: 12

Sköpuð marktækifæri
Í tapinu á móti ÍA: 2
Í sigrinum á Fylki: 4

Rangstöður
Í tapinu á móti ÍA: 1
Í sigrinum á Fylki: 4

Brot
Í tapinu á móti ÍA: 13
Í sigrinum á Fylki: 9

Skot reynd
Í tapinu á móti ÍA: 13
Í sigrinum á Fylki: 9

Skot á mark
Í tapinu á móti ÍA: 3
Í sigrinum á Fylki: 5




Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.