Íslenski boltinn

Pepsi Max mörkin: „Týpa sem Skaginn hefur ekki átt í nokkur ár“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefán Teitur Þórðarson í leik ÍA og Breiðabliks í síðustu umferð.
Stefán Teitur Þórðarson í leik ÍA og Breiðabliks í síðustu umferð. Vísir/Daníel

Nýliðar Skagamanna eru með þriggja stiga forskot á toppi Pepsi Max deildar karla í fótbolta eftir sigur á Breiðabliki í síðasta leik.

Einn af athyglisverðustu leikmönnum liðsins í upphafi móts er miðjumaðurinn Stefán Teitur Þórðarson. 

Stefán Teitur Þórðarson átti mjög góðan leik á móti Blikum og lagði meðal annars upp sigurmarkið. Hann fékk líka hrós í Pepsi Max mörkunum.

„Mér fannst hann mjög flottur. Hann byrjaði pínulítið brösuglega en vann sig flott inn í leikinn. Mér fannst hann besti maður vallarins og þá sérstaklega í seinni hálfleik,“ sagði Atli Viðar Björnsson um Stefán Teit Þórðarson.

„Hann er ný týpa af miðjumanni sem mér finnst Skaginn ekki hafa átt í nokkur ár,“ sagði Atli Viðar.

Stefán Teitur Þórðarson verður ekki 21 árs fyrr en í október. Hann er á sínu þriðja alvöru tímabili með Skagaliðinu en lék 20 leiki í úrvalsdeildinni sumurin 2016 og 2017.

Stefán Teitur var síðan með 10 mörk í 22 leikjum í Inkasso deildinni í fyrra og blómstraði eftir að Jóhannes Karl Guðjónsson tók við liðinu.

„Ég ætla ekki að gera honum það að fara bera hann saman við einhver nöfn en mér finnst þetta alveg svakalega spennandi leikmaður,“ sagði Atli Viðar.

„Hann minnir mig pínulítið á Sigga Jóns í töktunum,“ sagði Hörður Magnússon.

„Þetta er strákur sem er eiginlega alinn upp sem framherji. Hann byrjaði að spila á miðjunni í fyrra. Hann er með frábæra tilfinningu fyrir boltanum, með fínar hreyfingar og les leikinn vel,“ sagði Þorvaldur Örlygsson og bætti við:

„Miðjan hefur hentað honum vel. Hann er hávaxinn og á að geta unnið fleiri skallabolta. Hann skoraði meira á veturna heldur en á sumrin. Ég veit ekki af hverju, kannski þurfti hann að vinna meira á sumrin en á veturna,“ sagði Þorvaldur léttur.

Það má sjá alla umfjöllun Pepsi Max markanna um Stefán Teit í myndbandinu hér fyrir neðan.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.