Erlent

Umhverfisráðherrann gefur kost á sér sem eftirmaður May

Heimir Már Pétursson og Kjartan Kjartansson skrifa
Gove og Boris Johnson voru bandamenn í baráttunni fyrir Brexit. Eftir að David Cameron forsætisráðherra sagði af sér árið 2016 sóttust þeir báðir eftir formennskunni sem Theresa May hreppti á endanum.
Gove og Boris Johnson voru bandamenn í baráttunni fyrir Brexit. Eftir að David Cameron forsætisráðherra sagði af sér árið 2016 sóttust þeir báðir eftir formennskunni sem Theresa May hreppti á endanum. Vísir/EPA
Michael Gove umhverfisráðherra Bretlands, tilkynnti í morgun að hann sækist eftir því að verða næsti leiðtogi Íhaldsflokksins og þar með forsætisráðherra. Hann er áttundi frambjóðandinn til embættisins og annar frambjóðandinn sem styður svonefnt hart Brexit og keppir því á þeim vígstöðum við Boris Johnson fyrrverandi utanríkisráðherra.

Johnson og Gove börðust áður um leiðtogasætið í flokknum árið 2016 þegar Theresa May bar sigur úr bítum. Báðir vilja þeir að Bretar yfirgefi Evrópusambandið án samnings og telja breskir stjórnmálaskýrendur að átakalínan um leiðtogaembættið muni snúast um afstöðu frambjóðenda til þess.

May ætlar að segja af sér 7. júní. Henni mistókst að afla stuðnings þingmanna Íhaldsflokkinn við útgöngusamning hennar við Evrópusambandið.

Gove og Johnson voru bandamenn í baráttunni fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Eftir að útgangan varð ofan á í júní 2016 sagði David Cameron, forsætisráðherra, af sér. Fastlega var gert ráð fyrir að Johnson byði sig þá fram til leiðtoga. Honum að óvörum bauð Gove sig skyndilega fram eftir að hann hafði alla tíð neitað að hann ætlaði sér það. Johnson bauð sig því á endanum ekki fram. Gove varð lítt ágengt með framboð sitt og fékk um 14% atkvæða.


Tengdar fréttir

Óttast áhrif afsagnar Theresu May

Theresa May stígur til hliðar eftir mánaðamót. Vonast er til þess að nýr leiðtogi verði valinn fyrir lok júlí. Alls óvíst að leiðtogaskiptin dugi til þess að leysa Brexit-málið. Boris Johnson sækist eftir stólnum og þykir langlíklegastur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×