Erlent

May ætlar að hætta 7. júní

Samúel Karl Ólason skrifar
Theresa May.
Theresa May. AP/Alastair Grant
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ætlar að hætta sem leiðtogi Íhaldsflokksins þann 7. júní næstkomandi. Hún mun þó gegna starfi forsætisráðherra áfram þar til búið er að finna nýjan leiðtoga flokksins sem mun taka við embætti forsætisráðherra. May brast í grát þegar hún tilkynnti ákvörðun sína fyrir utan Downingstræti 10 í morgun.

May sagðist búast við því að vali um nýjan leiðtoga yrði lokið í júlí. Upprunalega átti Brexit að eiga sér stað þann 23. mars. Því var svo frestað nokkrum sinnum og svo allt til 31. október.

May hefur verið undir þrýstingi um að segja af sér, ekki síst síðustu daga eftir að hennar eigin þingmenn tóku afar dræmt í nýjustu útfærslu hennar á útgöngusamningnum við Evrópusambandið.

Þingmenn hafa nú hafnað útfærslum hennar þrívegis og ljóst þykir að það muni þeir einnig gera með fjórðu útgáfuna. Til stóð að hún yrði kynnt í dag en dráttur verður á því, ekki síst vegna þess hve illa tekið var í málið af samherjum hennar og ráðherrum í ríkisstjórninni.

Í yfirlýsingu sinni sagðist May hafa reynt sitt besta til að standa við niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar um úrgöngu Breta úr Evrópusambandinu frá 2016 og hún sæi mikið eftir því að hafa ekki getað það.


Tengdar fréttir

Sleit viðræðum við May um Brexit

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, tilkynnti nú í morgun að viðræðum hans og Theresu May, forsætisráðherra og leiðtoga Íhaldsflokksins, um úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu væri lokið.

Af hverju kasta mótmælendur mjólkurhristingum í Farage og félaga?

Lögreglan í Edinborg í Skotlandi hefur farið fram á það við skyndibitakeðjuna McDonalds að hætta sölu á mjólkurhristingum í borginni á laugardaginn til þess að koma í veg fyrir að stjórnmálamaðurinn Nigel Farage verði aftur fyrir barðinu á mjólkurhristingsárás.

May útskýrir leiðtogaval í júní

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hét því í gær að leggja fram áætlun um val á arftaka, það er nýjum formanni Íhaldsflokksins, þegar næsta atkvæðagreiðsla um Brexit-samning hennar er að baki.

36. ráðherrann til að segja af sér í stjórnartíð May

Andrea Leadsom, þingflokksformaður Íhaldsflokksins, hefur sagt af sér embætti og yfirgefur hún þar með ríkisstjórn Theresu May forsætisráðherra. Leadsom er þar með 36. ráðherrann eða ígildi ráðherra til þess að segja af sér í stjórnartíð May.

May stendur höllum fæti eftir að síðasta útspil hennar klikkar

May virðist hafa mistekist að afla stuðnings á þingi við fjórðu atkvæðagreiðsluna um samkomulag hennar við forsvarsmenn Evrópusambandsins um úrgöngu Bretlands úr sambandinu. Hvorki meðal stjórnarandstöðunnar né eigin þingmanna í Íhaldsflokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×